Fjallganga-Fimmvörðuháls

Nemendur í útivistaráfanga við skólann gengu Fimmvörðuháls um helgina. Í hópnum voru 29 nemendur og 3 kennarar. Fyrri daginn var gengið yfir Fimmvörðuháls og gist í Básum, en seinni daginn var gengið og vaðið inn Merkurker áður en haldið var heim. Aðstæður á Fimmvörðuhálsi voru nokkuð krefjandi, þoka og rigning, en hópurinn stóð sig vel og allir kláruðu gönguna áfallalaust.  Þessi leið er 25 km löng og tók um 10 klst að ganga með nokkrum stoppum.

Matvælabrautin undir stjórn Guðríðar Egilsdóttur sá um að útbúa kvöldmat sem var framreiddur í Básum. Þar var á boðstólnum úrbeinuð lambalæri, piparsósa, kartöflusalat og grænmetisalat með dressingu. Allt smakkaðist dásamlega og endurnærðust göngumenn á mettíma.

Þess má geta að á haustönn eru kenndir tveir útivistaráfangar sem eru meðal þeirra fjölbreyttu valáfanga í íþróttum sem boðið eru upp á við skólann. Annar áfanginn snýst um að fara í nokkrar stuttar göngur á fjöll í nágrenni skólans, hinn áfanginn snýst um fyrrnefnda göngu yfir Fimmvörðuháls.

Kennarar íþróttagreina við Fsu eru Sverrir Ingibjartsson, Ásdís Björg Ingvarsdóttir og Magnús Tryggvason.