FIMM FJALLA ÁFANGINN
Áfangaframboð í FSu er mikið og fjölbreytt á hverri önn. Enda sinnir skólinn tæplega eitt þúsund nemendum í hefðbundnu bóknámi, margvíslegu verknámi, íþróttaakademíum, listnámi, matvælagreinum, á hestabraut, sjúkraliðabraut, sérnámsbraut og í garðyrkjunámi svo nokkuð sé nefnt.
Eins og aðrar námsgreinar hefur kennsla og nám í íþróttum þróast í áranna rás og setja íþróttaakademíur af ýmsu tagi heilbrigðan og lifandi svip á skólastarfið. Á þessari önn voru tveir útivistaráfangar í boði þar sem nemendur ganga á sunnlensk fjöll af öllum stærðum. Annar er undir leiðsögn Ásdísar Bjargar Ingvarsdóttur þar sem meginmarkmiðið var að fara í eina langa göngu yfir Fimmvörðuháls frá Skógum og yfir í Þórsmörk.
Hinn fjallgönguáfanginn er undir stjórn Sverris Ingibjartssonar íþróttakennara þar sem farið er í sex styttri göngur á önninni en til þess að ná markmiðum áfangans þurftu nemendur að mæta í fimm fjallgöngur. Þess vegna hefur áfanginn fengið viðurnefnið Fimmfjallaáfanginn.
Fyrsta gangan er stutt og að þessu sinni var genginn hringur um svokallað Silfurberg í Ingólfsfjalli. Svo lengjast göngurnar þar sem farið er á fjöll í nágrenninu eins og Búrfell, Vífilfell og Hestfjall. Lokagangan á þessari önn er á Hengilinn og alla leið upp á fjallstopp sem kallast Vörðuskeggi. Það er 14 kílómetra leið með 750 metra hækkun. Í samtali við Sverri segist hann reyna „að láta göngurnar reyna á mismunandi þætti þar sem í einni göngu þarf að vaða á og í annarri reynir á klifur og smá lofthræðslu svo eitthvað sé nefnt.”
Sverrir er mikill talsmaður útivistar og stundar hana sjálfur af krafti. Hann bætir eftirfarandi við um gildi útivistar sem aldrei verður ofmetið: „Ég veit ekki hvort ég eigi að vera með einhvern heilsuáróður hér en það má benda á að fyrir utan augljósan líkamlegan hagnað af fjallgöngum að þá er vitað að hreyfing og dagsbirta auka framleiðslu hormóna sem bæta andlega líðan. Það að klára krefjandi göngu veitir einnig aukið sjálfstraust og aukna trú á eigin getu.”
si / jöz







