Fimleikaakademían í ketilbjöllutíma

Stelpurnar í fimleikaakademíunni fóru í styrktarþjálfun með svokölluðum ketilbjöllum nú á dögunum. Ketilbjöllur líkjast fallbyssukúlum með handfangi og eru til í mismunandi stærðum og þyngdum.   Val á bjöllum fer eftir æfingum og færni hvers og eins. Þetta eru mjög sérhæfðar æfingar sem þarf að framkvæma með mikilli tækni og var fenginn lærður ketilbjölluþjálfari, Heiðar Ingi Heiðarsson, til að kenna stelpunum undirstöðuatriðin. Æfingarnar auka bæði snerpu, styrk og þol og eru engu síðri en ólympískar lyftingar enda margar æfingar mjög svipaðar og í þeim lyftingum.Tíminn fór fram í Lifandi húsi en þar eru til svona bjöllur. Er skemmst frá því að segja að stelpurnar voru fljótar að læra og tóku hraustlega á í tímanum.