Festur og fjallganga

Miðvikudaginn 9. september fór hópur nemenda í áfanganum ÍÞRÓ3JF02 í leiðangur.  Ætlunin var að ganga frá Skógum, yfir Fimmvörðuháls og í skála Útivistar í Básum.  Vegna mikils hvassviðris, ákváðu fararstjórar að breyta því plani, enda höfðu fréttir borist af fjúkandi gtjóti uppi á Fimmvörðuhálsinum.  Þess í stað var ekið með hópinn beint í Bása og þaðan hugðist hópurinn ganga upp að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi.  Ýmislegt fór þó öðruvísi en ætlað var.  Rútan sem hópurinn ferðaðist með festist í Hvanná.  Sem betur fer leið ekki langur tími þar til að aðra rútu bar að garði og bauðst bílstjórinn til að flytja fólk og þann farangur sem hægt var að nálgast á áfangastað.  Þegar allir voru komnir á skálann í Básum kom í ljós að suma vantaði töskurnar sínar, nesti og fatnað meðan öðrum töskum hafði tekist að bjarga úr fastri rútunni.  Til að hægt væri að leggja af stað í gönguna ákvað hópurinn að deila nesti og þeim fatnaði sem var til staðar.  Þá strax kom í ljós hve samstiltur og jákvæður hópurinn var.

Gengið upp að gosstöðvunum á FimmvörðuhálsiGangan sjálf gekk vel, þrátt fyrir erfitt veður, rok og rigningu.  Nemendurnir fengu gott tækifæri til að reyna á sjálfan sig í erfiðum aðstæðum.  Eftir göngu var lambalæri grillað sem nemendur og kennarar á ferðamála- og matvælabraut höfðu úrbeinað og meðhöndlað listilega. Einnig höfðu þau útbúið salöt og sósur til að borða með. Eftir matinn var spjallað og spilað þar til að svefninn tók yfirhöndina.

Daginn eftir þurftum við að koma okkur að Hvanná (bílstjóranum okkar hafði tekist að koma rútunni upp úr ánni en ekki yfir hana) þar sem rútan beið.  Svo var ekið af stað en ekki langt. Vegna mikillar rigningar og vatnavaxta var ófært yfir Steinholtsá.  Þar tók við fimm tíma bið á meðan sjatnaði í ánni.  Að lokum tókst þó að koma rútunni yfir og allir komust heilir heim. 

Byggt á ferðasögu Bjarna Vals Guðmundssonar nemanda í ferðinni. 

Fleiri myndir úr göngunni má sjá á fésbókarsíðu skólans.