Ferð í Hellisheiðarvirkjun

Fimmtudaginn 13. september var farið í vísindaferð allra nemenda í NÁT113 og NÁT123 áföngunum. Þrjár rútur voru til taks sem flutti um 170 nemendur í Hellisheiðarvirkjun, með einum kennara í hverri rútu, en þeir voru Aníta, Jón Grétar og Ronald. Með kynningu og stuttri heimildarmynd gátum við lært um forsendur jarðvarmavirkjana og hvernig slíkar virkjanir nýta orku jarðarinnar til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni. Í Hellisheiðarvirkjun var hægt að líta inn í vélarsalinn og reyna að ímynda sér að það sé verið að framleiða 300 MW raforku! Hversu marga síma ætli sé hægt að hlaða með þeirri orku?

Jarðskjálftahljóðhermirinn vakti kátínu nemenda en þar „ollum“ við í sameiningu jarðskjálfta með því að hoppa samtímis upp. Á skjánum sáum við stóra sveiflu upp í kjölfarið sem jarðskjálftamælirinn sýndi.

Rútferðin lá einnig að borholu í Sleggjubeinsskarði en þær geta verið mjög öflugar og það háværar að ekki er hægt að tala saman við hliðina á henni. Með því að skoða svæðið í kring og sjá öll mannvirkin, rörin, gáma og drasl sem lá úti, varð okkur ljóst að virkjanir hafa einnig aðra hlið sem snýr að umhverfismálum. Nemendur minntust fyrirlesturs þess efnis þegar þeir brosandi út í eitt töluðu um sjónmengun, hljóðmengun og loftmengun.

Ekki var annað að sjá en að allir hafi haft gagn og gaman af þessari ferð sem farin var í í tilefni dags íslenskrar náttúru 16. september.