FÉLAGSLEGIR TÖFRAR Á ÞRÍSKÓLAFUNDI

Samstarfsfundur starfsfólks framhaldsskólanna á Suðurnesjum, Vesturlandi og Suðurlandi var haldinn í húsnæði Fjölbrautaskóla Suðurnesja mánudaginn 29. september. Þessir þrír skólar hafa lengi unnið saman að ýmsum málum eins og námsframboði og skipulagi náms. Allt starfsfólk skólanna hittist síðan á tveggja til þriggja ára fresti og skiptast skólarnir á um að halda þá fundi.

Að þessu sinni var komið Suðurnesjamönnum að halda fundinn. Kristján Ásmundsson skólameistari FS bauð fólk velkomið og setti fundinn. Anna Sigurðardóttir og Hermína Gunnþórsdóttir fluttu síðan fróðlegt erindi um gæði kennslu og ræddu sérstaklega um líðan nemenda í því sambandi. Að því loknu skipti starfsfólk sér í hópa eftir kennslugreinum og störfum og bar saman bækur sínar.

Að loknum ljúffengum hádegisverði var komið að Viðari Halldórssyni prófessor í félagsfræði við HÍ að flytja áhugavert erindi um félagslega töfra og hvernig þeim er ógnað í nútímasamfélagi af samfélagsmiðlum. Eftir þetta sérlega fróðlega og skemmtilega erindi spjallaði fólk saman áður en Sunnlendingar og Vestlendingar héldu heim á leið.

Niðurstaðan af svona reglulegu og faglegu samstarfi þessara þriggja framhaldsskóla felst í þeim félagslegum töfrum sem Viðari Halldórssyni var einmitt tíðrætt um í erindi sínu og verða til í beinum og milliðalausum samskiptum fólks. Þar er hið opna samtal drifkraftur jákvæðra og skapandi samskipta.

Takk fyrir gagnlegan fund og skemmtilegan dag. Allar ljósmyndir fylgjandi þessari frétt eru teknar af Guðmanni Kristþórssyni bókasafnsfræðingi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og í eftirfarandi krækju fylgja nokkar myndir frá Þrískólafundinum.

 

gk / jöz