Evrópska tungumálamappan í DAN102

Í vetur er fyrirhugað að stíga nýtt skref í innleiðingu Evrópsku tungumálamöppunnar (ETM) í áfanganum DAN102.  ETM er þróuð af Evrópuráðinu til að gera þeim sem leggja stund á tungumálanám auðveldara með að fylgjast með framvindu í námi sínu meðan á því stendur og skrá árangur sinn í tungumálanámi.  Mappan gefur nemendum einnig tækifæri til að setja sér sín eigin markmið í tungumálanáminu. Möppunni er þannig ætlað að stuðla að framförum í tungumálanámi og auka samskiptahæfni milli þjóða auk þess sem hún á að gera fólki auðveldara með að flytja milli landa til náms og starfa. ETM lýsir á hvaða stigi kunnátta nemandans er og nýtist þess vegna betur en hefðbundnar einkunnir þegar þeir sækja um skólavist eða starf erlendis. Hún hvetur einnig til náms í mörgum tungumálum.