Englandsferð nemenda Garðyrkjuskólans

Dagana 16.-20. ágúst fór hópur nemenda í náms- og kynnisferð til Englands. Garðyrkjuskólinn hefur skipulagt slíkar ferðir fyrir nemendur annað hvert ár um langa hríð.

Nemendur standa sjálfir undir kostnaði við ferðina með fjáröflun en kennari við skólann skipuleggur dagskrá ferðarinnar og er tengiliður skólans við þá aðila sem eru heimsóttir.

Alls tóku 18 nemendur og 1 kennari þátt í ferðinni. Dagskráin var þétt skipuð og farið var í fjölbreyttar heimsóknir. Farið var í heimsókn í Clock House Farm, til eins stærsta berja- og ávaxtaframleiðanda Englands, heimsótt garðplöntustöðin Palmstead auk þess að farið var á lífræna býlið Perry Court Farm sem framleiðir grænmeti og ávexti auk þess að reka bændamarkað.

Garðaskoðunarferð í Kew og Wisley grasagarðana er líka nauðsynleg öllu ræktunarfólki. Þetta eru stærstu og glæsilegustu garðar á Englandi og 5 klst í hvorum um sig rétt dugðu til að skoða það helsta.

Ferðin tókst vel í alla staði og var innblástur fyrir nemendur að sjá hvernig hlutirnir eru gerðir í útlöndum. Sumir voru langt komnir að ráða sig í verknám á Englandi en allir komu samt heim að þessu sinni en margir með upplýsingar frá tengiliðum í farteskinu.