EINVALALIÐ Á NJÁLUSLÓÐUM
Föstudaginn 10. október síðastliðinn lagði vaskur hópur nemenda upp frá Fjölbrautaskóla Suðurlands. Förinni var heitið í Rangárvallasýslu á slóðir Gunnars, Hallgerðar, Njáls, Skarphéðins, Bergþóru og Hildigunnar svo nokkrar persónur Brennu-Njáls sögu séu tíndar til. Lá leiðin upp með Ytri-Rangá að Þingskálum þar sem litið var yfir búðartóftir á þingstað. Því næst var ekið að Gunnarssteini en þar brugðu nemendur á leik og settu sig í spor þeirra bræðra, Gunnars, Kolskeggs og Hjartar þegar vesælir menn sátu fyrir þeim 30 talsins.
Komið var við á hinum ýmsu söguslóðum og farið yfir valda Njálu atburði. Miðaldahamborgarar voru snæddir, axarkast stundað, sögusýning skoðuð og pílu fleygt í hinu fornfræga Sögusetri hjá vertinum Úlfari sem reyndist höfðingi heim að sækja. Allir út á vegasjoppunni Hlíðarenda og þar var andinn dregin djúpt að rangæskum hætti til að finna fyrir sögulegum atburðum. Kennararnir Ragnhildur Elísabet og Lárus Ágúst voru afar ánægð með daginn og ferðafélagana sem voru stórskemmtilegir, fróðsleiksfúsir og til mikils sóma.
Að lokum skal þess getið að Menntaskólinn að Laugarvatni reyndist rausnarlegur og lánaði glæsilega búninga og vopn til sviðsetningar á völdum atburðum þessarar merkilegu sögu.
res / jöz







