Eins manns rusl er annars fjársjóður

Sigrún Ó. Sigurðardóttir.
Sigrún Ó. Sigurðardóttir.


Í sumar var tilkynnt um úrslit keppninnar Úrgangur í auðlind, sem haldin var á vegum Umhverfis Suðurland í samstarfi við hátíðina „Blóm í bæ“ í Hveragerði og Listasafn Árnesinga. Í keppnina bárust margar ólíkar en virkilega áhugaverðar tillögur af öllum toga; listaverk og hönnunarvörur og hugvitssamar lausnir tengdar umhverfismálum á einn eða annan hátt. Allar áttu þær það þó sameiginlegt að leita leiða til þess að endurnýta hráefni sem annars væri hent.
Það er sérstaklega gaman að segja frá því að „Sprotinn“ var veittur Sigrúnu Ó. Sigurðardóttur fyrir verk sín „Unnið úr afgöngum“ en þau urðu til í áfanga í myndlist við FSu sem kallaðist Endurvinnsla og hönnun. Í áfanganum var leitast við að skapa bæði list og nytjahluti úr alls kyns afgöngum og var t.d. lagt upp með að útbúa veggmyndir, skúlptúra, ljós, fylgihluti og innsetningar auk frjálsrar vinnu. Í verkum Sigrúnar má finna finna sprengikraft tjáningar sem áhugavert verður að sjá hvernig hún mun þróa áfram því því henni eru í raun engin takmörk sett á þessu sviði. 
Verkin sem Sigrún sendi inn í keppnina voru ljósakróna (nytjahlutur), hálsskraut (fylgihlutur) og veggmynd (listmunur). Þessi verk voru í sumar til sýnis ásamt verkum hinna þátttakendanna á Listasafni Árnesinga í Hveragerði.