Dómaraáfangi í samstarfi við KSÍ

Framhaldsskólar eru lifandi stofnanir þar sem sífellt er verið að endurskoða námsframboð í takt við þarfir nærsamfélagsins. Á hverju ári er boðið upp á nýja valáfanga. Sumir festa sig í sessi og aðrir ekki. 

Í vor fór KSÍ þess á leit við FSu að bjóða upp á valáfanga í dómgæslu haustið 2025. Erindið var samþykkt og 12 nemendur skráðu sig í áfangann. Gunnar Borgþórsson, kennari við FSu og yfirþjálfari hjá UMF. Selfossi kennir áfangann í samstarfi við Gunnar Jarl Jónsson dómaraþjálfara hjá KSÍ og fyrrverandi FIFA dómara. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkur áfangi er kenndur á Íslandi.

Samstarfið lofar góðu og eru nemendur ánægðir með áfangann. Á vef KSÍ má sjá ítarlegri frétt um þetta samstarf. Myndin var tekin á verklegri æfingu þar sem sjá má Gunnar Jarl og Jóhann Inga Jónsson frá FIFA gefa nemendum góð ráð (fengin að láni úr frétt KSÍ).