Doktorsvörn

Fimmtudaginn 2. september sl. varði Stokkseyringurinn Andrés Ingason doktorsritgerð sína í sameindalíffræði við Kaupmannahafnarháskóla. Doktorsritgerðin fjallar um tengsl eintakafjöldabreytileika í erfðamenginu við geðklofa. Andrés lauk grunnskólaprófi frá Grunnskóla Stokkseyrar vorið 1994, nam í Skógaskóla í fjórar annir og útskrifaðist svo frá Fjölbrautaskóla Suðurlands í desember 1997. Að afloknu þriggja ára námi við háskólanní Hróarskeldu sneri hann aftur til Íslands þar sem hann hóf störf hjá Íslenskri erfðagreiningu. Í júní 2008 hvarf Andrés aftur til náms í Hróarskeldu, þar sem hann vann að doktorsritgerð sinni. Andrés býr nú ásamt konu sinni, Rakel Jensdóttur, og tveimur börnum þeirra hjóna í Brüssel.