Bridgesveit FSu föst fyrir

Laugardaginn 26. september háði bridgesveit starfsmanna FSu, Tapsárir Flóamenn, sinn árlega hausteinvígisleik við Hyski Höskuldar. Einvígið fór fram í Höskuldsskála í Hrafntinnuskeri. Um seinni einvígisleik þessa árs var að ræða og staðan eftir þann fyrri nánast jöfn. Það er ekki að orðlengja það að þrátt fyrir heimavöll Höskulds var niðurstaða úr þessum síðari einvígisleik ársins talin ásættanleg fyrir FSu, bikarinn heldur áfram að vera í húsi og er það ekki síst að þakka konu einni franskri, Maríu Antoinette, og súkkulaðitertu. Tapsárir Flóamenn eru nú að íhuga nafnbreytingu á sveit sinni til að ná betur að endurspegla jákvætt viðhorf til þessa nýja verndarengils, en það bíður betri tíma.  Þess má geta að einvígi þetta hefur staðið yfir í 21 ár og hafa verið spiluð 1344 spil og lauslega má áætla að þau hafi tekið 168 klukkustundir.  Eftir þennan leik er staðan í einvíginu 3517-3473 FSu í hag í impum talið.