BLÓMSTRANDI NÝNEMAFERÐ
Þriðjudaginn 9. september skelltu tæplega 300 manns sér í árlega nýnemaferð FSu. Ferðin tilheyrir áfanganum BRAGA sem er umsjónaráfangi fyrir nýnema. Um 270 nýnemar tóku þátt auk nemendaráðs og starfsfólks. Sama fyrirkomulag hefur verið viðhaft um áratugaskeið - að fara með nemendur í Félagslund í Flóahreppi þar sem fjölmargar þrautir eru leystar undir styrkri stjórn Bragakennara og nemendaráðs. Þrautirnar leystar bæði innandyra og utandyra og hver krókur og afkimi nýttur til hins ýtrasta. Veðurspáin var ekki gæfuleg en úr rættist og veðrið hélst að mestu leyti þurrt - sem var greinilega það sem margir nemendur höfðu treyst á miðað við klæðaburð.
Markmið nýnemaferðar er að hrista hópinn saman með hæfilega krefjandi hópverkefnum. Þrautirnar eru eins ólíkar og þær eru margar og reyna á mismunandi styrkleika og bjóða upp á fjölþætt mat. Til dæmis er keppt í rúsínuspýtingi, stígvélakasti, parís, spurningakeppni, söguspuna og aflraunum svo eitthvað sé nefnt en alls eru stöðvarnar ellefu eða jafn margar keppnishópunum. Á einni stöðinni fer fram rafræn kosning um fulltrúa nýnema í nemendaráð sem kallaður er BUSAKRÚTT en fimm buðu sig fram til embættisins.
Að keppni og kosningu lokinni var haldinn grillveisla, pylsupartí með öllu tilheyrandi og veitingarnar ruku út. Heimildir herma að hraustasta fólk hafi sporðrennt allt að fimm pylsum með öllu. Dagurinn endaði á því að tilkynnt var um úrslit nýs fulltrúa nýnema í nemendaráð sem og úrslit þrautakeppninnar þar sem mjótt var á munum. Sigurvegarar fögnuðu að sjálfsögðu og héldu út í haustið og hlýjar rúturnar ásamt öllum öðrum þátttakendum dagsins.
ár / jöz