Berlín heimsótt

Nemendur í þýsku heimsóttu Berlín og æfðu sig í tungumálinu.
Nemendur í þýsku heimsóttu Berlín og æfðu sig í tungumálinu.

Sjö nemendur í efstu þýskuáföngunum í FSu dvöldu ásamt kennara sínum, Brynju Ingadóttur, í Berlín dagana 28. september til 1. október sl. í blíðskaparveðri; sól og 15 – 20 °C.
Skoðaðir voru helstu ferðamanna- og sögustaðir borgarinnar, t.d. safn til minningar um helför gyðinga, Brandenborgarhliðið, ríkisþingið, Sjónvarpsturninn og leifar Berlínarmúrsins. Ferðast var um borgina með öllum þeim fjölbreytta ferðamáta sem borgin hefur upp á að bjóða og voru nemendur fljótir að tileinka sér þá. Nemendur töluðu þýsku í verslunum og veitingastöðum, tóku þjónar og afgreiðslufólk því vel og sýndu nemendum áhuga.
Hápunktur ferðarinnar var fjögurra tíma hjólaferð um borgina með íslenskri leiðsögn. Var það afar fróðleg og skemmtileg ferð og leiðsögnin til fyrirmyndar. Það kom nemendum á óvart hve auðvelt er að hjóla í svo stórri borg sem Berlín er.
Berlínarferðin tókst mjög vel og líflegur og skemmtilegur nemendahópur var FSu til sóma.