Bætt aðstaða til kennslu í vélvirkjun

Vélvirkjar tóku nýlega í notkun nýja kennsluaðstöðu fyrir glussatækni, loftstýritækni og kælitækni. Þessi aðstaða og ný tæki hafa gjörbreytt forsendum til að læra þessi fög. Það má segja að faggreinarnar hafi breyst úr bóklegum yfir í verklegar greinar. Glussaborðið sem notað er er frá Festo og í því er búnaður sem nemendur geta sett inn allt frá einföldum glussakerfum til flókinna rafeindastýrðra glussakerfa. Einnig er notaður kennslubúnaður fyrir farartækjaglussa og sérstök álagstýrð glussadæla. Kælitækniborðið er mjög fullkomið og hægt er að setja inn 14 mismunandi bilanir sem nemendur glíma við að leysa.