Arnþór keppti á Íslandsmóti

Íslandsmót iðn- og verkgreina fór fram í Smáralindinni 18. og 19. mars. Er þetta í fimmta sinn sem slíkt mót er haldið. Keppt var í 15 iðngreinum auk sýninga svo nánast öll Smáralindin var undirlög. Sem dæmi um greinar má nefna trésmíði, rafmagn, bílgreinar, skrúðgarðyrkju, kjötiðn og hárgreiðslu. Góð stemmning var og margt um manninn. Einn keppandi var frá FSu að þessu sinni, Arnþór Jónsson sem keppti í húsasmíði. Þar var verkefnið að smíða nokkuð flókinn stól sem með einu handtaki mátti breyta í tröppu. Okkar maður náði að ljúka verkinu á tilsettum tíma og var sjálfum sér og skólanum til sóma en verðlaunin fóru annað.