ALLT SEM VIÐKEMUR HÁRI, HÖFUÐLAGI OG LÍKAMSBYGGINGU

Með nýju verknámshúsi FSu sem kallast HAMAR og tekið var í notkun árið 2017 jókst framboð á fjölbreyttu iðn- og starfsnámi við skólann. Nú eru starfræktar sex slíkar námsbrautir: grunnnám matvæla- og ferðagreina, grunnnám hársnyrtiiðnaðar, húsasmíðabraut, rafvirkjabraut, sjúkraliðabraut og vélvirkjabraut.  

Byrjað  var að kenna hársnyrtiiðn við FSu haustið 2017 sem var frábær og þörf viðbót við flóru verknámsins. Námið var upphaflega skipulagt sem þriggja anna nám sem telst vera grunnnám. Þá var ákveðið að bæta fjórðu önninni við haustið 2020. Fjöldi nemenda í háriðn eru að hámarki tólf og hafa stúlkur verið í meirihluta en strákar eru í sókn. Mikil aðsókn hefur verið í námið og fullsetnir bekkirnir frá upphafi en nýir nemendur eru teknir inn í deildina á tveggja ára fresti. Að loknum fjórum önnum í FSu geta nemendur lokið síðustu tveimur önnunum í Tækniskólanum í Reykjavík eða Verkmenntaskólanum á Akureyri.

Fullt nám í hársnyrtiiðn tekur þrjú ár og þurfa nemendur að vera eitt ár að auki á námssamningi á hársnyrtistofu. Að þessu loknu fara þeir í sveinsspróf og ná þá réttindum til að starfa við fagið. Nemendur læra allt sem viðkemur hári, höfuðlagi og líkamsbyggingu. Þeir læra þá miklu tækni sem snýr að klippingum og efnafræði er mikil í kring um litanir og permanent og verklýsingar af öllum verkefnum eru ítarlegar. Auk þess læra nemendur um mikilvægi mannlegra samskipta, góða mannasiði og líkamsbeitingu.

Að sögn Elínborgar ÖRNU Árnadóttur sem heldur utan um kennslu í háriðn í FSu er námið „skemmtilegt, skapandi og krefjandi og iðulega myndast góð vinátta milli nemenda sem eru saman hjá okkur alla daga í tvö ár í senn.” Og hún klykkir út með því að segja á sinn leiftrandi hátt: „Að læra hársnyrtiiðn gefur nemendum fjölbreytta atvinnumöguleika, bæði á hársnyrtistofum, í leikhúsum, við kvikmyndagerð og fleira. Áfram FSu.”

jöz.