Allir í sund

Dagana 19.-25. janúar fer fram 2. umferð í heilsueflingu framhaldsskóla. Að þessu sinni eiga nemendur skólanna að flykkjast í sund.
   Þetta fer þannig fram að nemendur FSu geta fengið sundkort í hendur frá forsvarsmönnum nemendaráðs, mætt frítt í sund í boði sveitafélaga á skólasvæðinu, synt a.m.k 200 metra og fengið stimpil á kortið í viðkomandi sundlaug. Þannig safna nemendur FSu inn stigum fyrir sinn skóla í íþróttakeppni framhaldsskólanna.
   Menntamálaráðuneytið stendur fyrir þessu átaki í samvinnu við heilbrigðisráðuneyti, Lýðheilsustöð og félög framhaldsskólanema. Fyrsta umferðin var í nóvember þegar um 5000 nemendur gengu 3 km. Átakinu lýkur 4. apríl nk. með lokahátíð þar sem krýndur verður Íþróttaskóli ársins.
   Nú gildir að skella sér í laugina og hirða dolluna.