Áhugaverð heimsókn

Fimmtudaginn 8. Nóvember heimsótti Andrea Ionnasceau skólann.  Andrea kemur frá Rúmeníu nánar tiltekið höfuðborginni Búkarest. Hún er við kennaranám við háskólann í Árósum í Danmörku. Andrea  heimsækir framhaldsskóla á Íslandi og kynnir heimaland sitt og Asíu þar sem hún ferðaðist um og kenndi.  Andrea  kom í sögutíma  til Lárusar Braga, sögukennara og sagði frá lífinu í Rúmeníu er hún var að alast upp.

Því næst fór hún í tíma til Helga Hermannssonar í félagsfræði og fjallaði um félagslegt misrétti á Indlandi, Banglades og í Kína. Margt hefur drifið á daga hennar á ferðum hennar um Austurlönd þar sem hún lenti jafnvel í því að þurfa að kenna börnum á Indlandi sem höfðu fyrr um daginn unnið 6-7 tíma erfiðisvinnu í múrsteinsverksmiðum, ekki eftirsóknarvert verkefni fyrir kennara og börnin lítt móttækileg fyrir námi. Í Banglades var helsta vandamálið að komast milli húsa þar sem hnattræn hlýnun er að drekkja landinu. Hægt og bítandi er sjórinn að vinna sigur á landinu og talið er að ef ekki tekst að snúa þróuninni við þá muni Banglades verða fyrsta landið sem hverfur af landakortinu. Ekki var Kína fullkomið heldur en skrifræðið var þó erfiðast, ekki mátti færa sig spönn frá rassi án þess að skrá það á lögreglustöð.