Fréttabréf 2012

Féttabréf nr. 10 – nóvember 2012

 

Kæri Hollvörður

Um leið og við sendum þér greiðslubeiðni fyrir félagsgjaldi ársins 2011 viljum við þakka þér stuðninginn og segja stuttar fréttir af högum samtakanna okkar sem eru orðin 10 ára. Ríflega 300 einstaklingar eru félagar auk 43 lögaðila.

 

Árgjald er nú kr. 1.000 fyrir einstaklinga en 3.700 kr. hjá fyrirtækjum og félagasamtökum. Þú ert vinsamlega beðin/n að leggja árgjaldið inn á reikning 1169-26-0302 (kennitala 620302- 3680) eða greiða samsvarandi kröfu í heimabankanum þínum. Við vonum að þú haldir áfram að styðja við bakið á okkur til góðra verka fyrir Fjölbrautaskólann.
 

Hér að neðan eru helstu fréttir af því hvað samtökin hafa verið að fást við.

Í stjórninni sem kosin var á síðasta aðalfundi þann eru sem fyrr, Hjörtur Þórarinsson formaður, Anna S. Árnadóttir gjaldkeri og Sigurður Eyþórsson ritari. Auk þess situr Nanna Þorláksdóttir í stjórninni sem fulltrúi starfsmannafélags F.Su og þar er einnig fulltrúi nemendafélags skólans.
 

Sú hefð er komin á að aðalfundur samtakanna sé haldinn á útskriftardegi vorannar í skólanum. Næsti aðalfundur verður því á útskriftardaginn í maí 2013. Útskriftin er vanalega kl. 14.00 og hefst þá fundurinn eftir kaffið að lokinni útskrift um kl. 16.20 og er haldinn á 2. hæð Odda. Á fundinum er hægt að kynnast starfinu betur og skrá sig í samtökin en skráningarblöðum er líka dreift við útskriftir.
 

Markmið samtakanna er annars vegar að auka tengsl F.Su við fyrrum nemendur sína og aðra þá sem bera hag skólans fyrir brjósti, hins vegar að styrkja og efla skólann eftir fremsta megni, fjárhagslega eða á annan hátt, en einnig og ekki síst að rækta og efla samband félagsfólks sín á milli. 
 

Stjórn Hollvarðasamtakanna hefur venju samkvæmt veitt námsstyrk til þess nemanda eða nemenda sem eru fremstir við lokapróf frá skólanum á hverri önn. Styrkurinn er nú kr. 60.000

Á haustönn 2011 voru styrkþegar Þórey Jóna Guðjónsdóttir, Edda Björk Konráðsdóttir og Haraldur Blöndal Kristjánsson.   Sara Rós Kolodziej  fékk styrk á vorönn 2011. Frá því að samtökin voru stofnuð hafa 36 nemendur fengið þennan styrk, alls tæpar 1.8 milljónir króna.

Jafnframt fá allir útskriftarnemendur að gjöf vandaðan penna með merki skólans frá Hollvarðasamtökunum.
 

Komin er út ritgerð Gylfa Þorkelssonar "Fjölbrautaskóli Suðurlands. Hornsteinn í héraði 1981-2011" þar sem farið er yfir 30 ára sögu skólans. Hollvarðasamtökin styrktu verkefnið.  Ritgerðin er aðgengileg hér:www.fsu.is/j/images/stories/pdf/fjolbrautaskolisudurlandshornsteinniheradi.pdf


 

 

Á árinu urðu skólameistarskipti, því Örlygur Karlsson lét af störfum eftir að hafa starfað fyrir skólann allt frá stofnun hans 1981, þar af sem skólameistari frá 2008.  Við skólameistarastöðunni tók Olga Lísa Garðarsdóttir, sem áður var skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands.  Formaður Hollvarðasamtakanna kvaddi Örlyg og heilsaði Olgu Lísu með ljóðum:

 
Kveðja til Örlygs
Heillaóskir til Olgu Lísu

Lykilmaður á leikvangi,

láns og gæfu nýtur.

Víkur senn af vettvangi. 

virðing allra hlýtur.

 

Lyklavöld og leiðsögnin.

fær lofið verðskuldaða.

Að enduðu starfi er umsögnin:

Örugg niðurstaða.

 

Í fræðslumálum  framvarða,

fremst á markalínum.

Heillakveðja Hollvarða:

Heill sé þér og þínum.

Maður kemur manns í stað,
í meistara stól þú sóttir.
Æðstu stjórn var þér úthlutað,
Olga Garðarsdóttir.
 
Að leiða æsku um óskalönd,
er lán og mesta dáðin.
Lykill er þér lagður í hönd,
að leggja á heilla ráðin,
 
Farsæld og framtíðarheill   

Hollvarðasamtök  FSu

 

Undir heimasíðu skólans fsu.is er vefur samtakanna og hefur Helgi Hermannsson kennari við skólann séð um ritstjórn hennar. Skoða má síðuna undir liðnum “Samstarf” á fsu.is, en slóðin er http://fsu.is/hvfsu. Helgi hefur einnig umsjón með félagaskrá samtakanna og uppfærslum hennar og samtökin þakka sem fyrr hans góða starf.


Margir eldri árgangar hafa komið á útskriftir og fært skólanum fjárupphæðir til sérstakra verkefna. Hollvarðasamtökin geta aðstoðað við koma því á að eldri árgangar komi á útskriftarhátíðir og rækti samband sitt við skólann um leið og þeir hitta gamla skólafélaga. Við leitum uppi nokkru fyrir skólaslit tengiliði frá þessum árgöngum og minnum á þessi tímamót. Yfirleitt gætir meiri áhuga eftir því sem lengra líður frá útskrift.  Ef þú átt bráðum útskriftarafmæli hvetjum við þig til að hafa samband við samtökin (hollverdirfsu@gmail.com) og við munum veita alla þá aðstoð sem við getum.


Við viljum benda á að hægt er að skrá sig í samtökin á heimasíðu skólans fsu.is (Undir liðnum “Samstarf" eins og getið er að ofan).

Útskriftarnemendum er skipulega boðin aðild ári eftir námslok en allir velunnarar skólans eru hvattir til að skrá sig.

 

Um leið og við þökkum öllum sem hafa lagt okkur lið hvetjum við þig til þess að fylgjast með fréttum af skólanum á vef hans fsu.is. Jafnframt er hægt að senda samtökunum póst á netfangið hollverdirfsu@gmail.com

 
Stjórnin