Fréttabréf 2010

Fréttabréf nr. 8 – október 2010
Kæri Hollvörður
 
Að þessu sinni gefst félagsmönnum kostur á að greiða félagsgjald ársins 2010  í heimabanka eða leggja kr. 900.- inn á kt. 620302 banki 1169-26-0302. Viljum við þakka þér stuðninginn og segja stuttar fréttir af högum samtakanna okkar sem eru orðin 8 ára. Ríflega 300 einstaklingar eru félagar auk 43 lögaðila.
 
Árgjald er áfram óbreytt; kr. 900 fyrir einstaklinga en 3.600 kr. hjá fyrirtækjum og félagasamtökum. Félagsgjöldin hafa verið óbreytt frá stofnun samtakanna árið 2002. Við vonum að þú haldir áfram að styðja við bakið á okkur til góðra verka fyrir Fjölbrautaskólann.
 
Í stjórninni sem kosin var á síðasta aðalfundi þann eru sem fyrr, Hjörtur Þórarinsson formaður, Anna S. Árnadóttir gjaldkeri, Sigurður Eyþórsson ritari. Auk þess situr Nanna Þorláksdóttir í stjórninni sem fulltrúi starfsmannafélags F.Su og þar er einnig fulltrúi nemendafélags skólans.
 
Sú hefð er komin á að aðalfundur samtakanna sé haldinn á útskriftardegi vorannar í skólanum. Næsti aðalfundur verður því á útskriftardaginn í maí 2011. Útskriftin er vanalega kl. 14.00 og hefst þá fundurinn eftir kaffið að lokinni útskrift um kl. 16.20 og verður haldinn í stofu 202 í Odda. Á fundinum er hægt að kynnast starfinu betur og skrá sig í samtökin en skráningarblöðum er líka dreift við útskriftir.
 
Markmið samtakanna er annars vegar að auka tengsl F.Su við fyrrum nemendur sína og aðra þá sem bera hag skólans fyrir brjósti, hins vegar að styrkja og efla skólann eftir fremsta megni, fjárhagslega eða á annan hátt, en einnig og ekki síst að rækta og efla samband félagsfólks sín á milli. Þetta viðfangsefni er alltaf í mótun, en hefur hingað til falist helst í því að styrkja góða útskriftarnemendur og önnur verkefni skólanum til heilla.
 
Stjórn Hollvarðasamtakanna hefur venju samkvæmt veitt námsstyrk til þess nemanda eða nemenda sem eru fremstir meðal jafningja við lokapróf frá skólanum á hverri önn.
 
Við útskrift á haustönn 2009 fengu þau Ingunn Harpa Bjarkadóttir og  Sigurður Fannar Vilhelmsson 50.000 kr. styrk. Stjórnin ákvað að hækka styrki upp í 75.000 krónur í ársbyrjun 2010. Á vorönn 2010 voru styrkþegar þær Þórhildur Helga Guðjónsdóttir og Eyrún Halla Haraldsdóttir og hlutu þær 75.000 kr. hvor í samræmi við það.
 
Formaður samtakanna, Hjörtur Þórarinsson afhenti styrkinn. Frá því að samtökin voru stofnuð hafa á þriðja tug nemendur fengið þennan styrk, alls um 1.1 milljón króna.
 
Jafnframt fá allir útskriftarnemendur að gjöf vandaðan penna með merki skólans frá Hollvarðasamtökunum.
 
Unnið er að því að rita 2. bindi sögu skólans sem er framhald fyrsta bindis sem fjallar um árin 1981-1991 og þegar hefur komið út. Stjórn Hollvarðasamtakanna styrkir m.a. verkefnið en markmiðið er saga áranna 1991-2011 komi út 2011, á 30 ára afmæli skólans. 
 
Jafnframt eru margar hugmyndir uppi um ýmiskonar starf tengt 30 ára afmælinu á næsta ári, sem verða kynntar síðar en allar tillögur eða ábendingar eru vel þegnar – hollverdirfsu@gmail.com
 
Undir heimasíðu skólans fsu.is er vefur samtakanna og hefur Helgi Hermannsson kennari við skólann séð um þá síðu í samráði við stjórn. Skoða má síðuna undir liðnum “Samstarf” á fsu.is, en slóðin er http://fsu.is/hvfsu. Helgi hefur einnig umsjón með félagaskrá samtakanna og uppfærslum hennar. Helga eru sem áður færðar þakkir fyrir þau tengsl sem hann hefur “netfest” milli okkar og hins mikla fjölda sem styrkir okkur í þögn en heldur tryggð við skólann sinn.
 
Margir eldri árgangar hafa komið á útskriftir og fært skólanum fjárupphæðir til sérstakra verkefna. Hollvarðasamtökin geta aðstoðað við koma því á að eldri árgangar komi á útskriftarhátíðir og rækti samband sitt við skólann um leið og þeir hitta gamla skólafélaga. Við leitum uppi nokkru fyrir skólaslit tengiliði frá þessum árgöngum og minnum þá á þessi tímamót. Enn sem komið er hafa yngstu hóparnir ekki skilað sér. Þess gætir meir hjá þeim eldri að koma við skólaslit. Samtökin hafa reynt að styrkja þann þátt að eldri árgangar komi á útskriftarhátíðir og láti í ljós vott ræktarsemi við skólann um leið og þeir hafa tækifæri til að hitta gamla skólafélaga. Á þessu ári eru 27 ár síðan að F.Su. útskrifaði fyrst stúdenta
 
Við viljum benda á að hægt er að skrá sig í samtökin á heimasíðu skólans fsu.is (Undir liðnum “Samstarf" eins og getið er að ofan).
 
Útskriftarnemendum er skipulega boðin aðild ári eftir námslok en allir velunnarar skólans eru hvattir til að skrá sig.

 

Um leið og við þökkum öllum sem hafa lagt okkur lið hvetjum við þig til þess að fylgjast með fréttum af skólanum á vef hans fsu.is. Jafnframt er hægt að senda samtökunum póst á netfangiðhollverdirfsu@gmail.com
 
Stjórnin