Fréttabréf 2007

Fréttabréf nr. 4 – maí 2007


Kæri Hollvörður


Um leið og við sendum þér gíróseðil fyrir félagsgjaldi ársins 2006 viljum við þakka þér stuðninginn og segja áfram fréttir af högum samtakanna okkar sem stofnuð voru 2002

Árgjald er áfram óbreytt; kr. 900 fyrir einstaklinga en 3.600 kr. hjá fyrirtækjum og félagasamtökum.
 

Í stjórninni sem kosin var á aðalfundinum 2006 voru Hjörtur Þórarinsson formaður, Anna S. Árnadóttir gjaldkeri, Sigurður Eyþórsson ritari. Starfsmannafélag F.Su. tilnefndi Nönnu Þorláksdóttur sem fulltrúa sinn og NFSu tilnefndi Stefán Ármann Þórðarson


Sú hefð er komin á að aðalfundur samtakanna sé haldinn á útskriftardegi vorannar í skólanum. Aðalfundurinn verður því nú föstudaginn 25. maí 2007. Útskriftin er vanalega kl. 14.00 og hefst þá fundurinn eftir kaffið að lokinni útskrift um kl. 16.20 og verður haldinn í stofu 202 í Odda.


Markmið samtakanna okkar er annars vegar að auka tengsl F.Su við fyrrum nemendur sína og aðra þá sem bera hag skólans fyrir brjósti, hins vegar að styrkja og efla skólann eftir fremsta megni, fjárhagslega eða á annan hátt, en einnig og ekki síst að rækta og efla samband félagsfólks sín á milli. Þetta viðfangsefni er stöðugt í mótun, en hefur hingað til falist helst í því að styrkja góða útskriftarnemendur og önnur verkefni skólanum til heilla. Það væri þó ekki kleyft að vinna að þessum verkefnum nema fyrir framlög ykkar félagsmanna.


Stjórn Hollvarðasamtakanna hefur venju samkvæmt veitt námsstyrk til þess nemanda eða nemenda sem eru fremstir meðal jafningja við lokapróf frá skólanum á hverri önn. Við útskrift á vorönn 2006 fengu þær Stefanía Ósk Garðarsdóttir og Guðrún Nína Óskarsdóttir 30.000 króna styrk hvor. Við útskrift á haustönn 2006 fengu þær Elísabet Ásta Bjarkadóttir og Helga Mjöll Stefánsdóttir einnig 30.000 króna styrk. Formaður samtakanna, Hjörtur Þórarinsson afhenti styrkinn fyrir þeirra hönd.


Unnið er að söguritun skólans sem yrði framhald söguritunar fyrsta áratugs skólans 1981-1991 sem þegar hefur verið gefin út. Stjórn Hollvarðasamtakanna hefur samþykkt fyrirheit um styrk til verkefnisins.


Í fyrra var skólanum færður að gjöf myndarlegur ræðustóll í tilefni 25 ára afmæli skólans. Stóllinn var smíðaður af fyrrum nemendum í meistaraskóla F.Su. þeim Axel Gissurarsyni, Baldri Guðmundssyni, Björgvin R. Snorrasyni og Hilmari Þ. Björnssyni. Þeir ásamt eigendum Selós ehf. gáfu alla vinnu og efni við stólinn sem framlag til Hollvarðasamtakanna. Stóllinn er með merki skólans greyptu í framhlið hans. Á honum er síðan málmplata með áletruninni “F.Su 25 ára 2006 – Kveðja og gjöf – Hollvarðasamtökin – stofnuð 2002”. Einnig er önnur plata þar sem koma fram hverjir gáfu hann eins og getur að ofan. Bogi Karlsson hjá Karli R. Guðmundssyni ehf. gaf báðar plöturnar og áletrunina á þær. Smiðirnir, Selós ehf. og Karl R. Guðmundsson ehf. eiga miklar þakkir skildar fyrir þeirra framlag vegna þessa og samtökin hafa fært báðum sérstök þakkarbréf fyrir.


Undir heimasíðu skólans fsu.is er vefur samtakanna og hefur Helgi Hermannsson kennari við skólann séð um þá síðu í samráði við stjórn. Skoða má síðuna undir liðnum “Samstarf” á fsu.is.


Margir eldri árgangar hafa komið á útskriftir og fært skólanum fjárupphæðir til sérstakra verkefna. Hollvarðasamtökin geta aðstoðað við koma því á að eldri árgangar komi á útskriftarhátíðir og rækti samband sitt við skólann um leið og þeir hitta gamla skólafélaga.


Við viljum benda á að hægt er að skrá sig í samtökin á heimasíðu skólans fsu.is (Undir liðnum “Samstarf" eins og getið er að ofan).


Útskriftarnemendur hvers árs eru skráðir inn árið eftir útskrift og mun gefast kostur á að ganga til liðs við samtökin ef þeir kjósa. Þeir greiða þó ekki félagsgjald fyrr en ári eftir námslok í Fsu.


Að lokum hvetjum við þig til þess að fylgjast með fréttum af skólanum á vef hans fsu.is. Hægt er að skrá sig á póstlista þar og fá fréttirnar sendar í tölvupósti í hverri viku.

 

Stjórnin