Fundur 2016 02.05

Fundur Foreldraráðs FSu

2. maí 2016

Mættir: Elín, Þorvaldur, Íva Rut, Íris Huld, Guðbjörg umsjónarmaður félagslífs nemenda og Olga Lísa skólameistari (var seinni hluta fundar). Aðrir boðuðu ekki forföll. 
Fundur settur kl. 16.15 á kaffistofu starfsmanna í FSu.
Dagskrá:
1. Fundað með nýju nemendaráði.
2. Umræður um skólastarfið.
3. Önnur mál.


1. Fundað með nýju nemendaráði

a. Guðbjörg kynnti til leiks nýtt nemendaráð. Fulltrúar þess eru: Sigþór C. Jóhannsson  (formaður), Sesselía Dan og Kristinn Sigurgeir. Þessir fulltrúar voru kosnir af nemendum
samkvæmt nýju kosningakerfi. Kerfið lofar mjög góðu og þykir lýðræðislegra en áður þekktist. Fulltrúar nemendaráðs óskuðu liðsinnis foreldraráðs vegna ,,edrúpotts“ sem er
mikilvægur liður í áfengisforvörnum skólans. Fulltrúar foreldra tók vel í þær óskir og óskuðu nýju nemendaráði góðs gengis í sínum mikilvægu störfum. 

b. Rætt um óskir nemenda um lengri tíma á dansleikjum og skemmtunum á vegum nemendaráðs. Foreldraráð mun taka málið upp við skólameistara.

2. Umræður um skólastarfið 

Kl. 17.00 Olga Lísa mætir á fundinn. Fulltrúar nemenda viku af fundi. a. Rætt um edrúpottinn og stuðning við hann. Foreldraráð býr ekki að fjármagni til að styrkja edrúpottinn en getur hins vegar óskað eftir stuðningi nærsamfélagsins, m.a. í formi gjafa. Þetta verður eitt af fyrstu verkefnum foreldraráðs á næsta skólaári. 

b. Dansleikjahald, lenging á tíma. Olga Lísa segir rökin fyrir tímasetningunum skýr. Fyrir það fyrsta er ekki hægt að lengja tímann fram yfir kl. 01 þar sem skemmtistaðir mega ekki vera opnir lengur í miðri viku. Í öðru lagi þurfi nemendur að öllu jöfnu að mæta í skólann morguninn eftir skemmtanahald og þurfi nauðsynlega hvíld. Í þriðja lagi er FSu í samstarfi við framhaldsskólana í Reykjavík varðandi fyrirkomulag á dansleikja- og skemmtanahaldi. Í fjórða lagi hafa lögregluyfirvöld í Árnessýslu lýst yfir mikilli ánægju með ríkjandi  fyrirkomulag og er það til bóta frá því sem áður var. Að endingu styðji fyrirkomulagið áherslur í forvarnastefnu skólans. Hins vegar gildi fyrirkomulagið ekki um árshátíð nemenda en þá er gefinn lengri tími. Foreldraráð tekur undir röksemdirnar enda ýti þær undir æskilegar breytingar á skemmtanamenningu allra nemenda. Foreldraráð hvetur því nemendaráð að skoða tímasetningar frá öðrum sjónarhóli, m.a. að fá nemendur á böll/skemmtanir fyrr að kvöldi.

c. Guðbjörg Grímsdóttir hættir sem umsjónarmaður félagslífs nemenda en tekur við stöðu forvarnafulltrúa á næsta ári.  Kl. 17.35 Guðbjörg fer af fundi. 

d. Rætt um skólastarfið almennt.  
Mikil aukning nemenda er á starfsbraut skólans á næsta ári.  
Nýr áfangastjóri tekur til starfa á næsta ári.
Engar nýráðningar eru fyrirhugaðar fyrir næsta ár.
Nýja verkgreinahúsið verður tekið í notkun í áföngum, frá 15. ágúst til 15. nóvember. 
Mál heimavistar. Heimavistin verður ekki rekin með sama sniði og áður. Leitað verður til íbúa í nærsamfélagi um leigu á herbergjum fyrir nemendur sem nauðsynlega þurfa húsnæði vegna fjarlægðar frá heimili.

2. Önnur mál.

Engin önnur mál að þessu sinni. 
Formaður boðar til næsta fundar með tölvupósti þegar nær dregur.  Fundi slitið kl. 17.45. 

Fundargerð ritaði Þorvaldur H. Gunnarsson.