Lokaverkefni í leiklist

Lokaverkefni nemenda í leiklist 103 voru flutt í síðustu kennsluviku haustannar. Verkefnið snerist um að búa til listrænan gjörning, flytja hann og gera svo grein fyrir verkinu í umræðum eftir flutning þar sem nemendur útskýrðu verkferil og hugmyndavinnu. Meðal verkefnanna kenndi margra grasa, þar má nefna sýningu á myndverkum, söngur, frumsamin lög og textar, stuttmyndir, leiknir þættir og margt fleira. Hér að neðan má sjá verkefni Magnúsar Ágústs Magnússonar, en hann samdi ljóð og bjó til forrit þar sem grímur birtast og flytja ljóðið og samdi áhrifstónlist. Magnús flutti ljóðið á sviði um leið og forritið rúllaði á sýningartjaldi, íklæddur grímu sem hann bjó til.

Glergrímur.

Harðnar mín gríma, andlitið við.

Hringar um heiminn minn þoka.

En hvor vor ber grímu, ég eða þið?

Sem augum ei sækist að loka.

 

Ískalið hjarta, þiðið en þó

þrælar við veggina hörðu.

Horfir á lífið, Lífvana frjó.

Lætur ei ást minnar örðu.

 

Hugsaðu gleði, grátstafi þá,

græðgina, ástsárið ljúfa,

sorgina, ástina, dauða minn sá.

Skaltu svo þögnina rjúfa.

 

Þú sérð ei þá grímu andlitið við.

Þung er sú gríma úr gleri

sem enginn skal tekið, sálnanna hlið.

Senn fæðist dauða þinn beri.

 

Þín hugsun er lokuð, hjartað er kalt.

Heyrir þú einsemd þá þína?

Þú einmanna ert, lífið er falt.

Heyrir þú röddu þá mína?

 

Ein er sú hugsun, ein er sú ást.

Eitt er það líf sem þú lifir.

Enginn þig heyrir, ein þú skalt þjást.

Einsömul klukka þín tifir.

 

Segðu mér frá, seg mér þitt líf;

segðu mér það sem þig langar,

En mundu það eitt, mjó er sú hlíf

að gríman orð þín öll fangar.

 

Ískalið glerið, lífvana ást,

eyrir það þrá þína enga

Og lífið þitt litla, eitt skal það fást

Og veggi um huga þinn lengja.

 

Við gáskafullt brosið, ósöltuð tár.

Grímurnar gráta víst aldrei.

Þótt stynji við höggi, óskorin sár,

Sprungur sem eldast með aldri.

 

Harðnar þín gríma, andlitið við.

Hringar um heiminn þinn þoka.

En hvor vor ber grímu, við eða þið?

Sem augum ei sækist að loka.

{youtube}9eKRgnfOqEA{/youtube}

 

Allir nemendur lögðu mikið á sig til að koma sínu verkefni á framfæri og ótrúlega gaman að sjá hversu mikil vinna lá að baki hverju verkefni.