LÖGGUR Í LÖNS

Forvarnarverkefnið Öruggara Suðurland varð til á stofnfundi í Þorlákshöfn 18. apríl árið 2024. Í því er lögð áhersla á að vinna að forvörnum og afbrotavörnum á breiðum samfélagsgrunni þar sem opinberar stofnanir og félagasamtök taka höndum saman. Í þeim efnum leikur fyrirbærið samfélagslöggan jákvætt og uppbyggilegt hlutverk og sinnir forvörnum í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og í félagsmiðstöðvum.

Í leikskólum er það Lúlli löggubangsi sem birtist börnunum en á grunn- og framhaldsskólastiginu eru það svokallaðar löggur í löns sem heimsækja nemendur þegar þeir snæða hádegisverð. Þessi glaðhlakkalega ljósmynd var tekin um miðjan janúarmánuð af þremur löggum í löns í mötuneyti Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem þeir snæddu dýrindis kjúklingabringur og ræddu við nemendur skólans.

ss / jöz