Listir og menning á ferð og flugi

Þriðjudaginn 15. október fór vaskur hópur nemenda í áfanganum Listir og menning á tvö listasöfn í Reykjavík. Á Kjarvalsstöðum voru skoðaðar sjaldséðar myndir eftir Kjarval, sem leynast inni í bönkum á Íslandi. Þar er einnig mikil yfirlitssýning á ljósmyndum hins heimsfræga rússneska listaljósmyndara Alexander Rodchenko; hann var mikll vinur ljóðskáldsins Mæjakovskíjs, sem orti ljóðabálkinn Ský í buxum; Ólafur Haukur Símonarson nýtti sér þetta ljóð í einu leikrita sinna þar sem sagði: "Skáldin eru ský í buxum". Á sýningunni má meðal annars sjá nokkrar myndir Rodchenkos af Mæjakovskíj.
Á Listasafni Íslands var voldug sýning á verkum hollenska Íslandsvinarins Kees Visser sem hann kallar Upp og niður: Upp er meðal annars himinninn, niður til dæmis jörðin. Þar er einnig verið að sýna nýleg verk í eigu safnsins, til dæmis verk eftir Þorvald Þorsteinsson, þar sem hann sýndi heimsálfurnar í nýju ljósi; þessi hluti sýningarinnar kallast Gersemar. Ein sýningin sem er í gangi á Listasafni Íslands segir frá bátsferðalagi tveggja Þjóðverja yfir Alpafjöllin, sem er að mestu ferð á þurrlendi; sýningin heitir Leiðangur 2011. Fjórða sýningin á L.Í. er verk eftir tvær íslenskar konur sem fjallar um Samsæti, þar er undir hið kvenlega og hið dýrslega; listakonurnar heita Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir og Gunnhildur Hauksdóttir. Verkin eru á myndbanda- og skrifuðu formi þar sem lýst er gestaboði og umræðum um stöðu kvenna í hugmyndasögunni.
Á meðfylgjandi mynd má sjá hluta listþyrstra nemenda Fsu fyrir utan Kjarvalsstaði, sem gerðu tilraun til að slá við listfengi hins rússneska ljósmyndara.