Kennsla hefst - fyrirkomulag og reglur í staðnámi

Fyrsti kennsludagur á haustönn 2020

Kennsla hefst mánudaginn 24. ágúst kl. 8:15. Fyrstu tveir tímarnir verða rafrænir en kl. 10:25 í tvöfalda tímanum, verður kennslan í FSu samkvæmt stundaskrá. Stundaskrá hvers nemanda segir til um námsgreinina og staðsetningu hennar í stofum.

 

Það sem skiptir öllu máli er að við höfum samskiptin snertingalaus, höldum 1 metra fjarlægð hvort frá öðru og þvoum og sprittum/sótthreinsum hendur reglulega.

 

  • Búið er að skipta skólahúsunum Odda, Iðu og Hamri upp í svæði, eins og sjá má hér í fréttinni á undan. Það er því skýrt hvar á að ganga inn í skólann þegar þið mætið og einnig skv. svæðaskiptingunni í hvaða stofu þið eigið að mæta. En það sjáið þið á stundaskrá ykkar. Nemendur í Hamri fylgja stundaskránni sem kennarar hafa sent.
  • Mikilvægt er að fylgja fyrirmælunum í hvívetna.
  • Það má ekki fara á milli hólfa. Það á að fara út sömu leið og komið var inn og ef næsti tími er á öðru svæði þá er farið eins að, inn og út á sama stað.
  • Allir nemendur þurfa að mæta með hlaðnar fartölvur og síma sem á að nota. Það er ekki um að ræða að skreppa út úr tíma nema í ítrustu neyð. Ef þess þarf er mikilvægt að þvo sér og spritta áður en komið er inn í stofuna aftur.
  • Þegar þið komið í skólann er mjög mikilvægt að koma ekki inn í hópum, sótthreinsa hendur og fara beint að stofunni sem þið eigið að vera í. Kennari opnar stofuna þannig að þið þurfið ekki að handleika snerilinn. Mikilvægt er að mæta áður en tími hefst en þó ekki allt of snemma.
  • Inni í stofunni eru sótthreinsiefni og bréf sem notast í lok tímans til að sótthreinsa borðið sem setið var við. Við biðjum nemendur að sinna því.
  • Þeir sem koma fyrstir inn í stofuna fara í öftustu sætin og þeir sem koma seinna í næstu röð og þannig koll af kolli.
  • Í verklegum greinum þar sem nándin getur verið innan við 1 meter nota bæði nemendur og kennarar grímur. Í Hamri þarf að nota hanska en kennarar munu fara yfir sóttvarnarreglur sem gilda í Hamri í fyrsta tíma.
  • Sameiginleg áhöld í verklegum greinum þarf að sótthreinsa fyrir og eftir notkun
  • Samkvæmt fyrirmælum frá stjórnvöldum, mega nemendur ekki vera á göngunum. Gangarnir eru eingöngu notaðir til að fara á milli stofa, meðan að þetta ástand varir. Það er því ekki leyfilegt að vera í opnu rýmunum skólans nema til að matast ef nemandi á að fara í annan tvöfaldan tíma.
  • Nemandi sem á að mæta í fjarnám í tímanum eftir þann tvöfalda þarf að hraða sér heim.
  • Nemandi sem býr lengra frá skólanum mætir í næsta tíma á eftir um leið og hann er kominn heim. Mikilvægt er að kennari viti hvað skýrir fjarveru eða seinkomu í tímann.
  • Ef nemandi er í 2x2 tímum á dag er möguleiki að nýta lesbás á bókasafni á meðan beðið er. Þar má ekki vera með mat. Í miðrýminu fyrir framan salinn er möguleiki á að borða nesti ef viðkomandi á að mæta í annan tvöfaldan tíma. Huga þarf að því að taka allt rusl með sér og gæta fyllstu varúðar varðandi smit.

 

Nemandi í sóttkví, einangrun eða sá sem bíður eftir niðurstöðu sýnatöku vegna COVID-19 smits mætir að sjálfsögðu ekki í skólann. Finnir þú fyrir eftirfarandi einkennum (kvefi, hósta, hita, höfuðverk, bein - eða vöðvaverkjum og þreytu)mætir þú ekki í skólann. Hafðu endilega samband við heilsugæsluna.

 

Ágætu nemendur þetta ástand er vonandi tímabundið en á meðan er ekkert annað að gera en að bíta á jaxlinn og fylgja fyrirmælum.

 

„Við erum öll Almannavarnir.“

Skólameistari