Kátir, kátir dagar

Það er alltaf fjör á Kátum dögum í FSu.
Það er alltaf fjör á Kátum dögum í FSu.

Kátir dagar voru haldnir í liðinni viku. Þá er formleg kennsla lögð niður og nemendur og starfsfólk taka þátt í dagskrá sem Kátudaganefnd skipuleggur. Dagskráin var fjölbreytt og var þátttaka góð. Fyrirlestrar voru vel sóttir sem og fjölbreyttir viðburðir og vinnustofur.

Meðal atriða á dagskrá var fræðsla og kynning á kírópraktík, Samtökunum ´78, vegan lífsstíl, neyslu orkudrykkja, kynfræðslu, sjúkraþjálfun, fjármálum, lýðháskóla og háskólanámi. Nemendur gátu spreytt sig meðal annars á spunaleik, brjóstsykursgerð, Crossfit, Zumba og gætt sér á Kebab vefjum þess á milli. Nemendur og starfsfólk hafði einnig umsjón með mörgum skemmtilegum viðburðum, þar má nefna manntafl, ljósmyndakeppni, borðspil (Dungeons and dragons, Skip-bo og félagsvist), blóðþrýstingsmælingar, Vetrarleikar á hestabraut, bingó, jóga, hnútanámskeið, gangsetning rússajeppa, stimpilþrykk, hárgreiðslustofa, kynning á kjarasamningum, vídjó-maraþon, tölvuleikjamót, opin myndlistarstofa, körfuboltamót og fótboltamót. Að auki bauð nemendafélagið upp á glæsilegan morgunmat handa öllum á fimmtudagsmorgun. Dagarnir enduðu svo með lokahnykk í Iðu þar sem nemendur og kennarar öttu kappi í óhefðbundnum boltaleik. Myndir frá Kátum dögum má skoða hér.