KÁTIR DAGAR OG FLÓAFÁR FRAMUNDAN

LIÐ Herkúlesar sem sigraði í síðustu Flóafárskeppni árið 2020
LIÐ Herkúlesar sem sigraði í síðustu Flóafárskeppni árið 2020

Eins og áður hefur komið fram í fréttapistlum FSu er nauðsynlegt að brjóta upp hefðbundið skólastarf með vettvangsferðum, leikhúsferðum, leiksýningum nemenda, heimsóknum nemenda á vinnustaði, gróðursetningu, fuglaskoðun, áfangamessu og jarðfræðiferðum svo nokkuð sé nefnt. OG nú er komið föstum liði í þeirri starfsemi (dagana 2., 3. og 4. mars) sem kallast KÁTIR DAGAR (og mun dagskrá þeirra birtast á heimasíðu skólans) og FLÓAFÁR og fara alltaf fram á vorönn. Um er að ræða þriggja daga veislu þar sem nemendur skipuleggja námskeið, kynningar og úppákomur á miðvikudegi og fimmtudegi en kennarar taka síðan við á föstudagsmorgni, klæða sig upp í alls konar liti, gervi og karaktera og etja nemendum saman í liðakeppni þar sem keppt er í öllum námsgreinum skólans. Oftast er farin sú leið að brjóta upp hefðbundna nálgun við námsgreinarnar og stuðst við sköpunargáfu kennarana og húmor þeirra. Þannig eiga íslenskukennarar EKKI að sjá um íslenskuþraut heldur fremur stærðfræðikennarar eða smíðakennarar svo dæmi sé tekið. Flóafárið er rakið allar götur til skólaársin 1998 til 1999 og hefur ekki fallið niður nema síðustu tvö ár út af kófi því sem veira framkallaði. Margar myndir eru til af þessari frábæru tilbreytingu og fylgja þær með á slóðinni: https://www.fsu.is/is/myndir/ljosmyndasafn/floafar

jöz