Húsasmíðanemar í kynnisferð

Í gær fór hópur húsasmíðanema sem eru að smíða sumarhúsið við Hamar í dagslanga náms- og kynnisferð um Árnes- og Rangárvallasýslur. Hópurinn fékk góða leiðsögn um Yleiningar við Reykholt, Límtré á Flúðum og glerverksmiðjuna Samverk á Hellu. Þá voru framkvæmdir við brúarsmíðina yfir Hvítá skoðaðar, en brúin mun tengja saman Biskupstungur og Hrunamannahrepp. Kennarar í ferðinni voru Jón S. Gunnarsson og Kristján Þórðarson.