Heimsókn í torfbæ

Miðvikudaginn 15. október fór hópur íslenskunema í fylgd kennara sinna í ÍSU (íslenska sem annað mál) þeirra Elínar Unu Jónsdóttur, Hannesar Stefánssonar og Hrefnu Clausen,  í vettvangsferð niður í Flóa. Tilgangur ferðar var að skoða Íslenska bæinn að Austur - Meðalholtum sem er í senn menningarsetur, húsaþorp og sýningarskáli, allt tileinkað menningararfi  íslenskra torfbæja. Gestirnir fengu hlýjar móttökur hjá húsráðendum þeim Hannesi Lárussyni og Kristínu Magnúsdóttur sem leiddu gesti á skýran  og skemmtilegan hátt inn í þann sérstaka staðaranda sem varðveittur er að Austur - Meðalholtum. Nemendur ÍSU, sem allir stunda nám í íslensku sem öðru tungumáli samhliða því að styrkja rætur sínar í  íslensku samfélagi, fengu þannig einstaka innsýn í forna búskaparhætti, horfna verkmenningu, aldagamlan byggingarstíl torfbæja og daglegt líf íslensks almúgafólks fyrr á árum.  Myndaðist einstök, hljóð stemning þegar unga fólkið tyllti sér á rúmin í baðstofunni og hlýddi á frásagnir húsráðenda um heimilisfólkið á bænum sem bjó við kjör sem eiga lítið sameiginlegt við þau sem nú tíðkast. Var líkast því sem allir hyrfu um stund marga áratugi aftur í tímann og yfir hópinn færðist löngu liðinn baðstofuandi. Eftir góða miðdagshressingu í sýningarskálanum; myntute og heimabakaðar kleinur, héldu menn heim á leið saddir, sælir og margs vísari um líf Flóamanna fyrr á tímum. Á myndunum má sjá nemendur og kennara sitja í baðstofunni að Austur- Meðalholtum. Fleiri myndir má sjá á fésbókarsíðu skólans.