GLÖGGT ER GESTS AUGAÐ

Í fyrstu kennsluviku þessarar haustannar 2022 komu í heimsókn sex erlendir kennarar frá Spáni og Búlgaríu. Tilefni heimsóknarinnar var að kynna sér starfsemi Fjölbrautaskóla Suðurlands og um leið var hún liður í menntaáætlun Evrópusambandsins – Erasmus + sem kallast Job Shadowing og gæti útlagst á íslensku sem athöfn til að skyggna (eða skoða) skólastarf. Að sögn Ragnheiðar Eiríksdóttur heimspekikennara við FSu sem sá um þessa heimsókn voru þessir dagar afar vel heppnaðir - sem bæði ýmsir kennarar við skólann nutu og margir nemendur.

Í skyggni búlgörsku kennarana kom meðal annars þetta fram um FSu: „Arkítektúr skólahúsnæðisins er glæsilegur. Innandyra er mjög bjart og nútímalegt um að litast sem eflir lærdómssamfélagið. Val nemenda á fögum (bóklegum og verklegum) er mikið og fjölbreytt og aðstaða til náms mjög góð. Hægt er til að mynda að velja jóga sem líkamsræktartíma og þróa það nám í reglubundna iðkun sem gagnast nemendum bæði andlega og líkamlega. Hvatinn sem myndast við svona heimsóknir og svona góða viðkynningu verður til þess að efla eigið starf og reyna að koma í verk nauðsynlegum og jákvæðum breytingum í okkar skóla. Á það munum við leggja áherslu þegar við komum heim. Við erum innblásin af hugmyndum eftir þessa heimsókn sem gaf okkur tækifæri til að kynnast frábærum kennurum FSu og nemendum þeirra.“

jöz / rei