GLIMRANDI GÓÐGERÐAVIKA
Aðstoðarskólameistarinn Sigursveinn var látin útiskokka í íþróttagalla frá 8. áratugnum. Skólameistarinn Soffía mætti í trúðabúningi í vinnuna og Kalli húsvörður afgreiddi hádegismat í mötuneyti skólans í samskonar búning. Stúlkur aflituðu augabrúnirnar og drengir hjóluðu í skólann úr Hveragerði. Kennarar skoruðu hver á annan og jafnvel heilu deildirnar. Þannig áttu íslenskukennarar að nota slettur og slangur í störfum sínum og skorað var á kennara stærðfræðideildar að lesa upphátt og oft í kennslustundum ljóðið Skarphéðinn í brennunni eftir Stein Steinarr.
Á miðvikudag komu fulltrúar frá SÁÁ og kynntu mikilvæga starfsemi sína á sal skólans. Kjörís gaf nemendafélaginu hátt í 500 íspinna sem þeir seldu síðan til styrktar SÁÁ. Lokahnykkurinn var svo í Iðu í hádeginu á föstudag þar sem nokkrir kennarar héldu skrautlega tískusýningu sem var ein af áskorunum og stjórn nemendafélagsins og útvaldir kennarar kepptu í fótbolta. Alls söfnuðust þessa vikuna að frumkvæði nemenda FSu 420 þúsund krónur og var þessi öflugi styrkur afhentur fulltrúa SÁÁ við glimrandi undirtektir.
ih / jöz