GETTU BETUR Á MÁNUDAGSKVÖLD

Nýju skólaári er alveg eins hægt að fagna með umfjöllun um unga og ferska kennara en nýjustu tölum í nemendahaldinu. Það er hægt að gera síðar. Enda eru ungir og hugmyndaríkir kennarar hverri skólastofnun nauðsynlegir. Þeir lyfta henni upp ef svo má segja og bjóða gleðilegt kennsluár. Blása inn fersku og nýju lofti, nýju gildismati. Því ekki er endalaust hægt að reiða sig á þá miðaldra eða gömlu sem eldast eins og gjafmildir guðir. Þó verður að taka það fram að þeir gömlu eru frábærir og skólanum nauðsynlegir. Endurnýjun í kennaraliði FSu hefur verið töluverð á liðnum áratug. Kjarninn í liðinu frá stofnun skólans í byrjun níunda áratugarins var gríðarlegur efniviður en hefur nú kvatt vettvang skólastofunnar.

Einn af ungu kennurum skólans í dag er Stefán Hannesson, menntaður í kvikmyndafræðum og íslensku en áður lauk hann námi frá FSu. Faðir hans og móðir voru bæði kennarar við skólann. Svo gerði Stefán garðinn frægan með Daða og gagnamagninu á baksviðinu með bakröddum og tilbúnu hljóðfæri í Evróvisjón. Í samtali við Sunnlenska fréttablaðið frá því í maí 2021segist hann hafa verið „ótrúlega ófrumlegur krakki” og bætir því við að besta lyktin sem hann finni sé „af nýkeyptum geisladisk.”

En ófrumleiki bernskunnar hefur þroskast af Stefáni því nú stýrir hann kennslu í kvikmyndafræðum við FSu og stuðlaði að mikilvægri heimsókn Kvikmyndskóla Íslands í FSu. Sú heimsókn átti sér reyndar stað 16. nóvember síðastliðnum á fæðingardegi Listaskáldsins góða. Í kyningunni var farið yfir starfsemi Kvikmyndaskólans og námskipulag. Einnig var stuttmynd nemenda skólans sýnd ásamt ýmsum tólum sem notuð eru við kvikmyndagerð. Enda sagði Stefán að lokum að þótt fréttastjóri skólans „væri seinn til að skrifa þessa voru nemendur FSu sérlega áhugasamir um þetta nám og aldrei að vita hvort þeir leggi það fyrir sig.” Og rúsínan í pylsuendanum er sú að fyrrum nemandi FSu, Hulda Kristín Kolbrúnardóttir var annar nemanda Kvikmyndaskólans sem kynnti starfsemi hans ásamt Pálma Heiðmanni Birgissyni. Það er allt í lagi að taka það fram að Hulda Kristín er frábær söngkona og stóð með Stefáni á sviði Gagnamagnsins.

Nú fer að líða að lokum þessarar fréttar (eins og segir í íslenskum annálum). EN auk alls þessa er Stefán þjálfari spurningaliðs FSu í Gettu betur og nú bregður til tíðinda því næstkomandi mánudagskvöld, 10. janúr klukkan 20. 20 keppir lið skólans við heimaskóla fréttastjórans, Flensborgarskóla. Kepninni verður streymt á RÚV. Í undirbúningi liðsheildar FSu í keppninni lá að baki metfjöldi þátttakenda og eftir langt inntökuferli stóðu þrír nemendur upp úr og skipa því lið FSu árið 2022. Við veðjum á þau. Liðið er skipað heiðursfólki Ásrúnu Aldísi Hreinsdóttur, Bjarna Má Stefánssyni og Júlíu Lis Svansdóttur. Fyrir jólahátíðina fóru fram stífar æfingar en NÚ er að duga eð drepast. Við styðjum öll við bakið á Gettu betur liðinu okkar. Það er skipað frábæru og efnilegu fólki og það veit Stefán manna best. „Elska þau” segir hann og bætir við „Áfram FSu” og vill fá stuðning úr kennaraliði og héraði.

Aðeins ein ljósmynd birtist á heimasíðu skólans en fleiri á fjasbókarsíðunni : - )

jöz.