Fréttir af skólahaldi á Litla-Hrauni

Eftir niðurskurð á fjármagni til skólahalds á Litla-Hrauni á undanförnum önnum virðist nú rofa til. Verið er að endurnýja tölvukost skólans þar og eru fjórar nýjar tölvur í pöntun auk þess sem settur var upp langþráður skjávarpi í stóru kennslustofuna (stofu 2).


Búið er að sækja um heimild til að fara af stað með nokkur námskeið og geta sum þeirra skilað nemendum einingum inn í áfangakerfi framhaldsskólanna.
Nú er 31 nemandi skráður í nám á vegum FSu á Litla-Hrauni og aðrir 15 í Bitru. Auk þess stunda samtals 6 nemendur í þessum tveimur fangelsum háskólanám með fjarkennslusniði. Búið er að sækja um aukningu á fjármagni vegna náms í þessum fangelsum fyrir árið 2013.
Meðfylgjandi mynd er tekin á fundi sem haldinn var á Litla-Hrauni nýverið þar sem um málefni skólans var fjallað. Á myndinni eru frá vinstri Ingi S. Ingason, kennslustjóri á Litla-Hrauni, Örlygur Karlsson, skólameistari, Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður Litla-Hrauns, Jón Sigurðsson, deildarstjóri og staðgengill forstöðumanns og Anna Fríða Bjarnadóttir, námsráðgjafi fangelsa.