Nordplus Junior frumkvöðlaverkefni

Fjölbrautaskóli Suðurlands tekur þátt í Nordplus Junior frumkvöðlaverkefni ásamt fleiri skólum á Norðurlöndunum. Fyrsti fundur skólanna var í Noregi. Fóru 8 nemendur frá FSu og tveir umsjónarmenn í heimsókn til Byåsen í Þrándheimi þann 5/11 og dvöldu þar í viku. Nemendur sem tóku þátt í verkefninu voru frá fjórum skólum, Byåsen videregående skole Noregi, Fsu, Huittinen í  Finnlandi og Ulvila í Finnlandi. Verkefnið gengur út á að nemendur þróa hugmynd að stofnun fyrirtækis og útfæra hugmyndina eins og um raunverulegt fyrirtæki væri að ræða. Nemendur eiga að reka fyrirtækið í hálft ár og skiptast á skoðunum um fyrirtæki sín á hálfs árs fresti á fundum skólanna. Nálgun verkefnisins skal vera á vistvænan og sjálbæran hátt. Nemendur kynntu á þessum fyrsta fundi skólana sína og hver hópur kynnti fyrirtæki í nærumhverfi sínu. Þessa viku sem nemendur unnu saman unnu þeir í blönduðum hópum við að móta hugmyndir að fyrirtækjum. Hóparnir fengu leiðbeiningar um hvernig á að "selja" hugmyndir sínar (pitching). Nýsköpunarverkefni hópanna voru metnaðarfull  og vel hugsuð. Flest byggðu á þróun einhvers konar "apps" fyrir snjallsíma.   

Næst hittast nemendur í Ulvila í Finnlandi, nánar tiltekið í apríl 2017.