Hestabraut FSU 10 ára

 

Hestabraut Fjölbrautarskóla Suðurlands hélt upp á 10 ára starfsafmæli fimmtudaginn 3. nóvember s.l. í reiðhöll hestamannafélagsins Sleipnis á Selfossi. Nemendur og kennarar á hestabraut buðu öllum áhugasömum að koma á sýningu til að fræðast um starf brautarinnar og fagna með þeim þessum merka áfanga. Sýningin heppnaðist afar vel og var þétt setið í stúkunni. Í kjölfar ávarps skólameistara Olgu Lísu Garðarsdóttur héldu nemendur um klukkustundar langa sýningu þar sem þau kynntu hluta af því sem er verið að kenna í verklegum reiðmennskutímum brautarinnar.

Að sýningu lokinni var gestum boðið uppá kaffi, kökur og kynningar á starfsemi brautarinnar. Settir voru upp básar með kynningarefni sem nemendur brautarinnar höfðu undirbúið. Það var frábær stemmning i höllinni og gestirnir gáfu sér góðan tíma til að ræða málin yfir kaffibolla eftir sýninguna, skoða kynningar og fyrirlestra. Gestum var einnig boðið að prufa hinar ýmsu æfingar hjá nemendum sem margir þáðu, og höfðu gaman af.

 

Um hestabrautina

Hestabraut FSu er bókleg og verkleg námsbraut, sem hægt er að ljúka með stúdentsprófi eða sem hestaliði eftir tvö ár.  Inniheldur námið verklega þjálfun og bóknám í greinum tengdum hestamennsku og reiðmennsku. Brautin er því góður undirbúningur fyrir þátttöku í atvinnulífinu, og við námslok eru nemendur vel undirbúnir fyrir mörg sérhæfð störf innan hestamennskunnar, auk þess að hafa góðan grunn fyrir háskólanám m.a. í hestafræðum.

Verkleg kennsla á fjórum fyrstu önnum brautarinnar fer fram í Votmúla og er kennt á hestum sem skólinn útvegar. Á fimmtu og sjöttu önn er kennslan færð yfir í reiðhöll, hestamannafélagsins Sleipnis  og nota nemendur þá eigin hesta við námið. 

Námið á brautinni er yfirgrips mikið og skipa t.d. áfangar tengdir hesthúsum, girðingum, fóðrun og umhverfi stóran þátt í starfi brautarinnar, en þar er farið yfir grunnin í járningum, fóður- og kynbótafræði ásamt samspili umhverfis, atferlis og heilbrigðis.

Veigamestu áfangar brautarinnar eru „ Reiðmennska“ og „Hestamennska“. Rík áherslu er lögð á klassískan grunn í reiðmennsku og hvernig  gott samband manns og hests er byggt upp á atferlisfræði hestsins. Á fimmtu önn er ætlast til að nemendur nýti sér þekkingu sem þeir hafa öðlast til að þjálfa og bæta sinn eigin hest. Á sjöttu önn eiga þeir að nýta kunnátt og þekkingu sína til að stilla hesti upp fyrir keppni.  Námsefni brautarinnar hafa kennarar hennar þróað frá byrjun. Knapamerki og próf þeim tengd  eru hluti af því, en eru einungis brot af því fjölbreytta efni og verkefnum sem farið er í á brautinni.

Nemendur þurfa jafnframt að hafa lokið tveimur áföngum í stafsnámi, leiðbeinandanámskeiði og skila lokaverkefni til að útskrifast.

 

Upphaf og saga hestabrautar FSu

Umsvif hestamennsku á Íslandi færðust mikið í aukann á síðustu áratugum tuttugustu aldar. Mikil uppbyggingin átti sér stað, m.a. á Suðurlandi og fjöldi hestatengdra stafsstöðva reis í landsfjórðungnum.  Hestaskólinn  á  Ingólfshvoli var stofnaður 1998 og má segja að sú stafsemi hafi markað grunnin að hestabraut FSu. Rekstur Hestaskólans gekk ekki eins og ætlað var og var skólinn lagður niður á öðru starfsári. Íslenski reiðskólinn var stofnaður á grunni Hestaskólans árið 2000 og var starfræktur í u.þ.b. þrjú ár og var í samstarfi við FSu, en kenndir voru valáfangar við FSu  í hestamennsku árin 2001 og 2002. Kennslan fór fram á Ingólfshvoli og var í umsjón Reynis heitins Aðalsteinssonar reiðkennara.

Á þessum árum voru miklar umræður um hvernig haga ætti menntun varðandi hestamennsku á Íslandi.  Menntun hafði fram til þessa verið að mestu byggð á forsemdum hrossaræktar þ.e.a.s. öll skipulögð kennsla á sviði hestamennsku fór fram í bændaskólum og út frá ræktunarsjónarmiðum. Hestamennska hafði þó vaxið hratt sem íþróttagrein og átti aðild að Íþróttasambandi Íslands í gegnum Landssamband hestamannafélaga. LH tók því virkan þátt umræðunni um menntun í hestamennsku og vildi byggja upp nám í tengslum við íþróttina m.a. í samstarfi við Íslenska reiðskólann. Áttu stjórnendur Íslenska reiðskólans, LH og  FSu fund til að kanna möguleika á meira samstarfi. Ekki varð úr þeim ráðagerðum þar sem Íslenski reiðskólinn lenti í gjaldþroti og var lagður niður. Ákveðin reynsla hafði samt sem áður myndast hjá FSu sem starfar á stærsta og öflugasta svæði hestamennskunnar þar sem mikil þekking er til staðar.

Fyrsta júní árið 2004 fóru Haraldur Þórarinsson og Sigurður heitinn Steinþórsson frá Hæli báðir stjórnarmenn hjá LH á fund með Sigurði Sigursveinssyni skólameistara FSu og Örlygi Karlssyni aðstoðarskólameistara, til að kanna möguleika á hugsanlegu samstarfi við uppbyggingu á námsframboði á sviði hestamennsku. Niðurstaðan varð sú að fulltrúar LH ásamt Kjartani Ólafssyni þingmanni áttu fund með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þáverandi ráðherra mennta- og íþróttamála og viðruðu við hana hugmyndina. Tók hún þeim vel og í framhaldinu var skipaður starfshópur með Magnúsi Lárussyni frá LH, Sigurði Sigursveinssyni frá Fsu og Guðna Olgeirssyni frá menntamálaráðuneyti til að kanna möguleika á þessu námi. Styrkir frá „Átaksverkefni í hrossarækt“  og Þróunarsjóði framhaldsskóla fengust í verkefnið.  

Varð til hugmynd að braut sem byggðist á stafsnámsbraut þar sem sérstök áhersla yrði lögð á  menntun starfsfólks á hestaleigum og tamningastöðvum. Þetta átti að vera tilraunaverkefni og fyrirmynd og námskráin sett þannig upp að hún yrði opin öllum framhaldsskólum.  Í janúar 2006 fékkst leyfi frá menntamálaráðuneytinu fyrir almennri námsbraut og var um að ræða tilraunaverkefni til tveggja ára. Þá um sumarið var kynnt tillaga að námsskrá. Kennsla hófst haust 2006 á 25 ára afmælisári skólans og 12 nemendur hófu þá þegar nám á brautinni.  Viljayfirlýsing frá menntamálaráðuneyti, Fsu og LH var undirrituð  árið 2007 um að FSu tæki að sér frekari þróun brautarinnar og þróað yrði fjölþætt nám á sviði hestmennsku sem tæki mið af sérstöðu greinarinnar sem búgrein, íþróttar, menningar og ferðaþjónustu.

Hestamannafélagið Sleipnir hefur einnig stutt vel við bakið á brautinni í gegnum árin, t.d. var á aðalfundi árið 2009 rætt um það góða starf sem þar væri. Ályktun var samþykkt á þeim fundi að skora á FSu að halda því starfi áfram, en einnig var áskorunni beint til Sveitarfélagsins Árborgar að styðja við bakið á  FSu við frekari þróun brautarinnar. Tilvera brautarinnar var einnig einn að grundvöllum þess að Sleipnir réðst í byggingu reiðhallar á sínum tíma og uppbyggingar ásvæðinu við Brávelli, einnig hefur tilkoma hennar skapað mikið líf í hesthúsahverfi Sleipnis.

Hestabrautin í dag

Mikil ásókn hefur verið í nám við hestabrautina og hafa undanfarin ár byrjað um 15 – 20 nýir nemendur á hverju ári. Í heild stunda að jafnaði um 30 nemendur nám á brautinni ár hvert. Nemendur koma flestir frá Suðurlandi en alltaf sækja nemendur af öðrum landssvæðum líka um inngöngu á brautina.

Eins og fyrr hefur fram komið fá nemendur verklega kennslu í bæði reiðmennsku og flestum öðrum þáttum er viðkoma hestamennsku, en jafnframt eru bóklegar kennslustundir þar sem farið er yfir fræðilega þætti og þeir tengdir við praktíska nálgun.

Í fyrrahaust, skólaárið 2015-2016 var í fyrsta sinn kennt eftir nýrri námskrá fyrir hestalínu sem gefur möguleika til stúdentsprófs. Um vorið 2016 útskrifuðust frá FSu, í fyrsta sinn á Íslandi, nemendur með stúdentspróf af hestalínu.