Góður árangur verðlaunaður

Allmargir nemendur hlutu viðurkenningar fyrir góðan námsárangur við brautskráninguna nú, og allmargar viðurkenningar féllu sömu einstaklingunum í skaut.
   Bestum heildarárangri náði Sigurður Fannar Vilhelmsson. Fékk hann sérstaka viðurkenningu skólanefndar af því tilefni auk námsstyrks frá Hollvarðasamtökum skólans. Sigurður Fannar fékk einnig fimm önnur verðlaun fyrir námsárangur í einstökum greinum. Ingunn Harpa Bjarkadóttir hlaut einnig námsstyrk frá Hollvarðasamtökunum fyrir góðan námsárangur og hlaut hún fern önnur verðlaun. Harpa Rún Kristjánsdóttir fékk fimm verðlaun fyrir einstakar greinar eins og Sigurður.
   Þau Einar Jökull Einarsson, Harpa Dögg Hafsteinsdóttir, Hrafndís Brá Heimisdóttir og Erla Sóldís Þorbergsdóttir fengu eina viðurkenningu hvert. Harpa Dögg Hafsteinsdóttir  fékk viðurkenningu fyrir félagsstörf.
Fimm nemendur brautskráðust af  tveimur brautum. Einn stúdent, Hrafndís Brá Heimisdóttir, útskrifaðist eftir aðeins 5 anna nám við skólann. Þá varð Ingibjörg Jónsdóttir fyrsta konan til að brautskrást sem meistari í húsasmíði frá FSu.