Fjallganga yfir Fimmvörðuháls

Fjörugur fjallgönguhópur
Fjörugur fjallgönguhópur

Nemendur í útivistaráfanga FSu gengu yfir Fimmvörðuháls miðvikudaginn 4. september sl. Í hópnum voru 28 vaskir nemendur ásamt þremur kennurum. Hópurinn fór með rútu að Skógum snemma morguns og gekk síðan sem leið lá yfir hálsinn og yfir í Þórsmörk, eða um 25 km og hæsti punktur í rúmlega 1000 metra hæð. Nemendurnir stóðu sig frábærlega vel, enda samheldinn hópur þarna á ferð sem lét ekki lúna fætur stöðva sig. Fimmvörðuháls er virkilega falleg gönguleið. Í upphafi gengum við upp með Skógá og náðum við að telja 22 fossa, hverja öðrum fallegri. Þegar haldið er áfram frá Baldvinsskála er landslagið orðið allt annað eða sandur og ís og sérstök upplifun að ganga á milli jökla. Þegar við nálguðumst Þórsmörk mættu okkur gígarnir tveir Magni og Móði og að sjálfsögðu var Magni toppaður. Því miður læddist þoka yfir okkur á þeim tímapunkti og fengum við því ekki að njóta útsýnis yfir Þórsmörk, en engu að síður var frábært að ganga niður í grasi grónar brekkur og kjarr. Þegar komið var niður í Bása eftir u.þ.b. 9 klst göngu, voru það þreyttir en ánægðir göngugarpar sem tóku til við að grilla og undirbúa kvöldverð. Það var því þreyttur, saddur og sæll hópur sem gisti í skála Útivistar í Básum. Á heimleiðinni var tekið stutt stopp til að ganga inn í og skoða Nauthúsagil. Ferðin gekk vel með fjörugum hópi nemenda sem höfðu gleðina að leiðarljósi.