Grikklandsferð

Í október fóru nemendur FÉLA3MÞ05 (Mannfræði og félagsfræði þróunarlanda) til Grikklands með þrem kennurum FSu. Ástæða þess að Grikkland varð fyrir valinu í vettvangsferð var staða Grikklands gagnvart þróun í dag og áður og svo það að Grikkland er vissulega vagga menningar, lýðræðis og menntunar sem er mikilvægt út frá mannfræðilegu sjónarhorni og þróun. Farið var í heimsókn til útibús Rauða krossins í Aþenu, upp á Akropolis hæð (þar sem meyjarhofið er einnig t.d.) að sjá leikhús Díonýsosar, musteri Seifs og þjóðminjasögusafn Grikkja, svo lítið eitt sé nefnt. Ferðin gekk vel í alla staði og voru nemendur áhugasamir og duglegir að taka þátt í öllu. Svona ferðir skilja mikið eftir sig og er við hæfi að láta frásögn eins nemenda fylgja með.

Nú á dögunum fór félagsfræðiáfangi á vegum Fjölbrautarskóla Suðurlands út til Grikklands í námsferð. Áfanginn tengist mannfræði og þróunarlöndum og er Grikkland mjög ríkt af mannfræði og er talið til þróunarlands núna vegna mikils efnahagshruns og stöðugs innflutnings innflytjenda. Fyrir ferðina þá safnaði hópurinn pening með fjáröflunum sem gekk mjög vel. Þegar var svo komið að því að fara til Grikklands ríkti mikil spenna í hópnum og var greinilegt að allt stefndi í mjög góða ferð sem var svo raunin. Þegar hópurinn lenti saman inná hóteli í Aþenu eftir leigubílaferð frá flugvellinum var strax búið að mynda sér skoðun um hvernig lifnaðarhættir Grikkja væru og hvernig fólk það var, en eitt af því sem kom hópnum mjög á óvart var viðhorf starsfólks í búðum og almennings í Grikklandi, sem flestum fannst neikvæðara en á Íslandi. Menningin var mjög frábrugðin því sem þessi íslenski hópur er vanur heima fyrir og var það því pínu sjokk fyrir suma sem höfðu ekki ferðast mikið erlendis. Til dæmis kíkti hópurinn á Akrapolis sem er hluti af forn-grískri menningu en var það ótrúlega fróðlegt og fengum við örlitla kynningu um Akrapolis á staðnum frá hóp af krökkum í ferðinni. Eitt af því sem einkenndi þessa ferð 24 framhaldsskólanema hvaðan af á Suðurlandinu var samheldni, virðing fyrir hvort öðru og pössunarsemi en það var aldrei neinn skilinn útundan og enginn var óvelkominn neitt sem er mjög gott miðað við það að hópurinn þekktist ekkert sérlega vel fyrir ferðina en þrátt fyrir það mynduðust sterkar vináttur milli krakka í hópnum sem er ótrúlega jákvætt. Þetta var mjög lærdómsrík ferð og komst maður að því hversu mikil fátækt er þarna úti og var það mjög þroskandi að sjá muninn á Grikklandi og Íslandi til dæmis annað sem var skemmtilegt að fræðast um var hversu stór saga þessa lands er.  Greinarhöfundur: Axel Örn Sæmundsson, félagsfræðinemandi.