Fjölbreytt verkefni í vélvirkjun

Magnús Tryggvason og Borgþór Helgason, kennarar í vélvirkjun stilla sér upp við tölvustýrðan fræsara…
Magnús Tryggvason og Borgþór Helgason, kennarar í vélvirkjun stilla sér upp við tölvustýrðan fræsara sem notaður er í náminu.

Vélvirkjun er fjölbreytt og skemmtilegt nám sem kennt er við FSu. Sá glæsilegi árangur náðist nú við útskrift á haustönn 2018 að nemandi í vélvirkjun, Almar Óli Atlason, varð dúx skólans. Mun það vera í fyrsta skiptið sem dúx kemur af verknámsbraut. Aðstaðan til kennslu vélvirkjunar hefur tekið stökk  fram á við með nýju húsnæði og má segja að FSu sé kominn í fremstu röð verknámskóla hvað tækjakost og verkefnavinnu varðar. Verkefnin í vélvirkjun eru fjölbreytt og má nefna að nemendur læra að teikna í þrívíddarforritinu Inventor. Í forritinu teikna nemendur meðal annars vörubíl, verkfærakassa og stálgrindarhús, sem þeir síðan prenta út í þrívíddarprentara. Víðfeðmara nám er vart hægt að finna en nemendur læra að smíða úr stáli og sjóða stál, renna öxla, búa til og tengja loft og glussakerfi. Þeir læra á kælikerfi frystihúsa, plastviðgerðir, vélar bæði smáar og stórar og er notast við vélaherma og alvöru skipavélar. Tölvustýrðu vélarnar „CNC“  eru tvær, bæði rennibekkur og fræsari og eru þeir sömu tegundar og Háskólinn í Reykjavik notar, sem gerir nemendur héðan frá FSu vel hæfa til að halda áfram í námi hvort sem er í iðnfræði, tæknifræði eða verkfræði og er vélvirkjun sterkur grunnur fyrir framhaldsnám í tæknigreinum á háskólastigi. Kennarar í vélvirkjun eru Borgþór Helgason, Magnús Tryggvason, Sigurþór Leifsson og Sigurður Grímsson.