Briddsinn breiðist út til heimilanna

Briddsborð
Briddsborð

Bridds á sér langa sögu í Fjölbrautaskóla Suðurlands, jafnlanga og skólinn sjálfur. Varla hefur liðið sá kaffitími í sögu skólans  að ekki hafi verið tekið í spil. Keppnislið innan skólans „Tapsárir Flóamenn“ hefur keppt reglulega við „Hyski Höskuldar“ og oftar en ekki borið sigur úr bítum eins og frægt er orðið. Margir fleiri starfsmenn skólans taka þátt af mikilli ákefð og áhuga en kannski minna „keppnis“. Í annasömu starfi er gott að geta gleymt stund og stað í skemmtilegri valdabaráttu um slagina. Á fyrri árum skólans voru karlspilarar í miklum meirihluta en það hefur breyst mikið á seinni tímum. Stundum er svo þéttsetið að spilað er á þremur borðum. Á tímum Covid-19 er ekki hægt að hittast og þukla á sömu 52 spilunum eins og venja er. Því hafa briddsarar FSu hist reglulega á internetinu til að spila. Samtímis eru fundir hjá briddsfélaginu „hlaupið í skarðið“ á teams og Bridge Base Online. Þannig er bæði hægt að spila og spjalla samtímis, næstum eins og á kaffistofunni.  Briddsarar eru á einu máli um að gæðastundirnar sem varið er í bridds hjálpi mikið til við að halda geðheilsu á tímum covid 19 ekki síður en jóga enda er þetta alger núvitundaræfing. Briddsarar í FSu eru um 25 talsins svo oftast er hægt að  ná í a.m.k. eitt borð. Briddsinn er upplagður fyrir innanhússferðalanga í páskafríi. Fyrir þá sem vilja feta sig áfram í þessari gæðaafþreyingu, en hafa ekki reynsluna, er einfalt að skrá sig inn á Bridge Base online og spila við tölvuna, hringja í vini eða spila við ókunnuga. Þetta er bara gaman.