ALDREI FLEIRI NÝNEMAR Í FSu

Þrátt fyrir veirufaraldur fer skólastarf í FSu vel af stað. Bjart er bæði yfir nemendum og starfsfólki og fjölbreytni og kraftur ríkir í skólastarfinu. Segja má að miðrými skólans í aðalbyggingunni Odda sé vel hannað til að höndla þær ráðstafanir sem grípa þarf til en bæði er þar hátt til lofts og vítt til veggja. Að sögn Sigursveins Sigurðssonar aðstoðarskólameistara eru skráðir nemendur í dagskóla 910 og þar af 261 nýnemi „sem er metfjöldi nýnema frá upphafi skólastarfs í FSu. Heildartala nemanda í gegnum árin hefur farið yfir eitt þúsund en nýnemar hafa aldrei verið eins margir.” Skýringin segir Sigursveinn liggja helst í fjölmennum árgöngum og að mikil fjölgun eigi sér stað á upptökusvæði skólans og sérstaklega á Selfossi. Við FSu starfa nú rúmlega eitt hundrað manns þar af 75 kennarar.

„Kvöldskólinn hóf starfsemi sína í vikunni en hann er nýjung til að svara eftirspurn um nám í anda gömlu öldungadeildarinnar. Við byrjuðum um áramótin með einn hóp í rafvirkjun og annan í húsasmíði. Þetta er viðbót við hefðbundið skólastarf og eflir menntun í héraði.”

Grímuskylda er í skólanum í samræmi við tilmæli opinberra aðila. Skólum er þó leyft að sleppa grímunotkun í ákveðnum rýmum en Sigursveinn leggur áherslu á „að betra sé að nota grímu meira en minna. Nemendur mæta þessum aðstæðum af æðruleysi og skilningi” segir hann og undirstrikar samtakamáttinn. „Vissulega hefur þessi faraldur neikvæð áhrif á félagslífið sem er stór hluti af því að stunda nám í framhaldsskóla en vandinn er ræddur og leystur á fundum skólaráðs sem er samráðsvettvangur stjórnenda, kennara og síðast en ekki síst nemenda.”

Að síðustu má geta þess að stórum hátíðahöldum í tilefni af fjörutíu ára afmæli skólans þann 13. september næstkomandi verður frestað um óákveðin tíma en þess í stað athyglinni beint að smærri viðburðum. Sagt er skóli eigi að rúma fjölbreytni, sköpunargleði og upplýsingu og það má svo sannarlega segja um FSu á fjörutíu ára ferli hans.

jöz.