Fundur 2014 01.12

Fundur Foreldraráðs FSu 1. desember 2014
 
Mættir: Ásdís, Björn, Elín, Kristín, Olga Lísa, og Þorvaldur.
 
Fundur settur kl. 16.50 á kaffistofu starfsmanna í FSu.
 
Dagskrá:
 
1. Á döfinni í skólastarfinu. 2. Önnur mál.  
 
1. Olga sagði frá og sat fyrir svörum um skólastarfið það sem af er:
 
  • Jólastemningin er farin að setja mark sitt á skólastarfið. Jólaprófin að hefjast og Olga sagði frá frísklegum hópi dimmitanta sem mætti í kjötsúpu 28. nóvember á sal skólans. Skemmtileg hefð þar sem nemendur flytja m.a. brag um kennara.
  • Símatið festist í sessi þar sem fleiri áföngum lýkur ekki með jólaprófi.
  • Rætt um nýja vinnutímaskilgreiningu en skólaár framhaldsskólanna er að færast nær skólaári grunnskólanna í lengd, eða 180 daga. Prófatímabilið (desember og maí) mun í stórum dráttum flytjast yfir á kennslutímabilið, sem þýðir að kennsludögum fjölgar, en skv. kjarasamningi frá í apríl sl. voru skil á milli prófatíma og kennslutíma afnuminn.
  • Olga greindi frá kynningu fulltrúa KÍ og menntamálaráðuneytis varðandi vinnumat kennara sem aftur tengist nýgerðum kjarasamningum. Kjósa á um þetta nýja vinnumat í febrúar á næsta ári. Ljóst er að vinnumatið mun ekki einfalda störf stjórnenda eða kennara. Helsta breytingin er sú að hver áfangi er ekki lengur metinn sem 25% starf heldur getur hann verið metinn sem 20-30% starf, allt eftir umfangi áfangans. Eru miklar vonir bundnar við gerð sniðmáts fyrir mat á áföngum, svokallað ,,dæmaáfangi“, svo minnka megi verðandi flækjustig.
  • Rætt um nýja skólanámskrá. Hún er í fullum undirbúningi og áætlað er að hún taki gildi á næsta skólaári. Stúdentspróf frá FSu mun miðast við 200 Fein en skólar mega nú stýra fjölda eininga til stúdentsprófs, sem er allt frá 180-220 Fein. Nýrri skólanámskrá er ætlað að auka val nemenda þar sem flestir nemendur þurfa ekki að taka eins mikið af einingum í kjarna og áður.
  • Verið er að endurskoða nemendareiknilíkan Mrn en fram til þessa hafa framhaldsskólar fengið greitt sem samsvarar þeim fjölda nemenda er mætir til prófs í hverjum áfanga. Markmiðið er að minnka ófyrirsjáanleika í fjárhagsgerð skólans, sem hefur oft komið niður á fjárúthlutunum í lok fjárhagsársins.
  • Í tengslum við nýja skólanámskrá spannst umræða um þá hugmynd (sem var í umræðunni í fyrra) að fyrsta árs nemar fengju tækifæri til að kynnast sem flestum brautum og greinum á upphafsári sínu í skólanum. Sú hugmynd er enn í nánari skoðun að sögn Olgu. Góður rómur gerður að því.
  • Olga sagði frá einkar skemmtilegu námi í dönsku þar sem nemendur unnu með raunverkefni, þ.e. að skipuleggja og fara í ferð til Danmerkur. Gafst afar vel og hefur án efa verið hvetjandi fyrir nemendur. Meginnámsmatið var óhefðbundið en það fólst í gerð dagbókar (á dönsku auðvitað) sem hver nemandi þurfti að skila inn eftir ferðina.
  • Fulltrúar foreldraráðs spurðu út í afrakstur skólafundarins frá því í október. Olga sagði að vinna með gögnin væri langt komin og verið væri að vinna að aðgerðaráætlun fyrir skólann úr þeim hugmyndum sem þar komu fram.
  • Fulltrúi foreldraráðs gagnrýndi nýtingu á umsjónartíma nemenda. Olga sagði það afar misjafnt hvernig haldið væri utan um umsjónartíma. Væntanlega mun hlutverk þessara tíma breytast með nýrri námskrá.Olga vék af fundi kl. 17.50.

2. Önnur mál.

  • Þorvaldur sagði frá því helsta sem kom fram á síðasta fundi Skólanefndar (sjá m.a. í fundargerð frá þeim fundi á heimasíðu FSu). http://www.fsu.is/index.php/nefndir-og-rae/skolanefnd
  • Foreldraráðsfulltrúar ræddu um hlutverk foreldraráðs í breytingastarfi, m.a. í tengslum við nýja skólanámskrá. Allir sammála um að aðalmarkmið ráðsins sé að gæta hagsmuna nemenda. Hvetja þarf nemendur og foreldra til að koma mikilvægum málum eða fyrirspurnum til foreldraráðs. Nemendur og foreldrar hafa til þessa lítið nýtt sér þennan formlega vettvang innan skólans.
  • Foreldraráð stefnir að því að funda með fulltrúum Nemendafélags FSu til að heyra skoðanir þeirra og fá ábendingar. Reiknað er með að það verði eftir áramót. 

Boðað verður til næsta fundar í janúar 2015.

Fundi slitið kl. 18.15.
Fundargerð ritaði Þorvaldur H. Gunnarsson.