Jafnréttisáætlun FSu

Jafnréttisáætlun Fjölbrautaskóla Suðurlands

Markmið jafnréttisáætlunar Fjölbrautaskóla Suðurlands er að gæta jafnræðis og jafnréttis á öllum sviðum skólastarfsins. Áhersla er lögð á að allir fái notið sín án tillits til kynferðis, trúarskoðana, þjóðernis og uppruna, kynþáttar, kynhneigðar, litarháttar, efnahags, ætternis, fötlunar, aldurs og stöðu að öðru leyti. Jafnréttismál og leiðir til að vinna að jafnri stöðu einstaklinga verði einnig virkur þáttur í starfsmannastefnu skólans og starfsemi nemendafélagsins.

Jafnréttisáætlun Fjölbrautaskóla Suðurlangs grundvallast á 65.gr. stjórnskipunarlaga nr. 33/1944 (http://www.althingi.is/lagas/148b/1944033.html) og lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 (Jafnréttislög http://www.althingi.is/lagas/148b/2008010.html) .

Undirmarkmið jafnréttisáætlunarinnar eru eftirfarandi: 

i)

Tryggja skal launajöfnuð og leitast við að leiðrétta launamun milli kynja ef einhver er (sbr. 19.gr. og 25.gr. laga nr 10/2008).

Framkvæmd: Í lok febrúar ár hvert skal liggja fyrir greining á launum og öðrum kjörum starfsmanna ásamt tölfræðilegri samantekt. Leiðrétta skal laun ef óútskýrður mismunur kemur fram. Niðurstöður árlegrar jafnlaunaúttektar skal kynna fyrir starfsfólki.

Laun eru skilgreind sem almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar frekari þóknun, bein og óbein, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni sínum fyrir vinnu hans (2.gr. 8.tölul. jafnréttislaga).

Kjör eru skilgreind sem laun ásamt lífeyris-, orlofs- og veikindaréttindum og hvers konar öðrum starfskjörum eða réttindum sem metin verða til fjár (2.gr. 9.tölul. jafnréttislaga).

Ábyrgðaraðilar: Skólameistari, aðstoðarskólameistari, fjármálastjóri og jafnréttisfulltrúi.

ii)

Tryggja skal jafnan rétt kynja við ráðningar og val í nefndir/ráð, sem og til endurmenntunar og starfsþjálfunar (sbr. 20.gr. og 26.gr. laga nr. 10/2008).

Framkvæmd: Fylgjast skal markvisst með ráðningum, úthlutun verkefna og tilfærslum innan skólans og hvetja bæði kyn til að sækja um og taka þátt, bæði meðal starfsmanna og nemenda. Tryggja skal að konur og karlar hafi sömu möguleika til endurmenntunar og símenntunar og til að sækja námskeið og ráðstefnur til að auka hæfni í starfi.  Í lok febrúar ár hvert skal leggja mat á þátttöku karla og kvenna.

Ábyrgðaraðilar: Skólameistari, aðstoðarskólameistari, jafnréttisfulltrúi. Jafnréttisfulltrúi nemenda komi að þeim málum sem snerta nemendur.

iii)

Leitast skal við að gera starfsmönnum kleift að samræma starfsskyldur sína og skyldur við fjölskylduna (21.gr. laga nr. 10/2008). 

Framkvæmd: Við annarlok (maí og desember) geta kennarar lagt fram óskir um kennslumagn og skipulag stundatöflu og þær verði virtar eins og kostur er. Komið er til móts við annað starfsfólk um tilhliðrun vinnutíma á sama hátt. Tryggja skal að bæði karlar og konur hafi sömu möguleika til sveigjanleika.

Ábyrgðaraðilar: Skólameistari, aðstoðarskólameistari.

iv)

Tryggja skal með sérstökum ráðstöfunum að starfsfólk og nemar verði ekki fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni í skólanum (22.gr. og 28.gr. laga nr. 10/2008)

Framkvæmd:  Á vorönn verði kynnt aðgerðaáætlun gegn einelti, kynbundnu áreiti, kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi gagnvart starfsfólki og nemendum í skólanum. Áætlunin verði síðan kynnt í upphafi hvers skólaárs.

Einelti er skilgreint semsíendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir (3.gr. d.liðar reglugerðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustað)

Kynbundin áreitni er skilgreind sem hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi (2.gr. 3.tölul. jafnréttislaga).

Kynferðisleg áreitni er skilgreind sem hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg (2.gr. 4.tölul. jafnréttislaga).

Kynbundið ofbeldi er skilgreint sem ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi (2.gr. 5.tölul. jafnréttislaga).

Ábyrgðaraðilar: Skólameistari, aðstoðarskólameistari og jafnréttisfulltrúi.

v)

Jafnréttissjónarmið verði samþætt í öllu starfi skólans. Nemendum skal ekki mismunað á nokkurn hátt og jafnréttissjónarmið skulu tryggð, m.a. við val námsefnis og skipulag náms og kennslu (23.gr. laga nr. 20/2008).

Framkvæmd: Kynna fjölbreytta námsmöguleika og tryggja að hver og einn nemandi geti hindrunarlaust sótt þá áfanga sem hann kýs. Skoða skal brottfallstölur og greina þær. Leggja fyrir GNOK könnun (Gæði náms- og kennslu).

Ábyrgðaraðilar: Jafnréttisfulltrúi, áfangastjóri, náms- og starfsráðgjafar, sviðsstjórar, sjálfsmatshópur FSu, jafnréttisfulltrúi nemenda og félagsmálafulltrúi og umsjónarkennarar (vegna vals).

vi)

Jafnræðis og jafnréttis skal gætt við auglýsingagerð (29.gr. laga nr. 10/2008).

Framkvæmd: Fara skal yfir allar auglýsingar og fréttatilkynningar og annað efni sem fer frá skólanum og nemendafélaginu áður en það er birt.

Ábyrgðaraðilar: Skólameistari, aðstoðarskólameistari og jafnréttisfulltrúi, félagslífsfulltrúi. Jafnréttisfulltrúi nemenda kemur að þeim málum sem snerta nemendur.   

vii)

Leitast skal við að skapa andrúmsloft í skólanum sem stuðlar að vellíðan þeirra sem þar starfa (starfsfólk og nemendur).

Framkvæmd: Starfsmenn og nemendur gæti þess á hverjum tíma að koma fram af virðingu við aðra og láti sig velferð náungans varða.

Ábyrgðaraðilar: Allir starfsmenn og nemendur.