VETTVANGSFERÐ TIL DANMERKUR

Nemendur dönskuáfanganum Bókmenntir og ferðalag (DANS3BF05) skruppu í vettvangsferð til Danmerkur dagana 23. til 27. apríl að skoða danskt skólahald og nám. Með þeim í för var dönskukennarinn Ida Lön og stærðfræðikennarinn Kristjana Sigríður Skúladóttir.

Í áfanganum er fengist við bókmenntalestur og greiningu á dönsku ásamt barnabókagerð og skipulag á ferðalagi til Danmerkur með fjárhagslegum stuðningi Erasmus. Um þátttökunám er að ræða þar sem nemendur sjá um alla þætti ferðalagsins, að kaupa flugmiða, panta gistingu, finna skóla til að heimsækja, ákveða transport og búa til dag- og tímasetta dagskrá frá upphafi ferðar til enda.

Fyrri skólinnn sem sóttur var heim heitir Roskilde Festival Højskole tók vel á móti Íslendingunum með ögrandi litavali og arkitektúr. Skólinn var stofnaður 2019 og telst því vera algert ungabarn í lýðháskóla samhengi dansks skólakerfis. 69 nemendur stunda nám við skólann á vorönn og þar af er helmingur frá öðrum löndum en Danmörku. Kennarar eru tíu talsins og þrír starfsmenn sinna skrifstofustörfum.

Skólinn er staðsettur á gömlu iðnaðarsvæði í Roskilde og byggður á grunni gamallar sementsverksmiðju. Þar er í boði nám í tónsköpun, viðburðastjórnun, hljóð & ljós og ýmisskonar annari listsköpun.

Eftir hádegi þennan sama dag lá leiðin í Copenhagen International School sem er 1000 nemenda skóli á aldrinum 6 til 18 ára sem koma frá 84 löndum. Kennarar við skólann eru 150. Skólinn var stofnaður árið 1963 og hefur verið til húsa víðsvegar um höfuðborgina. Núverandi bygging var tekin í notkun 2017 og er algjörlega þakin sólarsellum. Mjög vel búinn, nýtískulegur og tilkomumikill skóli á hafnarsvæðinu með útsýni yfir hafið til allra átta og móttökurnar þar hlýjar, upplýsandi og menntandi eins og í Roskilde.

jöz / il