Vel heppnað kórferðalag

Að baki er vel heppnað ferðalag kórs Fjölbrautaskóla Suðurlands til Kaupmannahafnar, Stokkhólms, Tallinn og Tartu.Hvar sem kór FSu kom fram fékk hann vænan skammt af hrósi sem var langt umfram hefðbundið kurteisishrós. Það duldist engum.

Á torginu í Tallinn kom Bandaríkjamaður til kórstjóra og virtist aðal orðið hans vera "wow".  Hann spurði hann fyrst hvaðan kórinn væri, því næst hver aldursdreifingin væri. Við hvert svar svaraði hann "wow". Sagði svo í lokin hafa unnið með fjölmörgum bandarískum kórum og aldrei heyrt eins góða tónmyndun og "músíkalitet".

Á tónleikunum í Tartu uppskar kórinn nokkur "Bravo" og uppklapp.  Enginn hinna kóranna upplifði hið sama.  Að loknum flutningi á lögunum Unravel  & Hverjum degi nægir sín þjáning tárfelldu sumir tónleikagestir.  Kórfélagar voru uppnumdir, þeir skildu hvað þeir voru að gera.

Það að stjórna kór er ekkert ósvipað því að spila á hljóðfæri.  Lykillinn að velgengni felst einkum í því að fá hljóðfærið til að vinna með hljóðfæraleikaranum, þ.e. svara óskum hans.  Allt of oft sér maður kórstjóra reyna að draga hlassið og kórfélaga raula með.  Í kór FSu er það þannig að kórfélagar ýta á eftir hlassinu eftir ábendingum stjórnandans.  Þessi "samvinnu" nálgun stjórnanda vs. kórs er styrkur kórsins og vekur eftirtekt annarra. Danskir kollegar ræddu þetta á leið til baka frá Tallinn og fengu góð ráð.

Eistneski kórinn sem tók á móti okkur söng alls fimm lög á tónleikunum þrátt fyrir að hverjum kór hefði verið skammtað rými fyrir aðeins þrjú lög.  Annað þessara "aukalaga" var íslenskt "Ég vil lofa eina þá" eftir Báru Grímsdóttur.  Það var sérstaklega sungið til heiðurs íslenskum ferðalöngum og sem þakklætisvottur fyrir þann gjörning íslenskra stjórnvalda að vera fyrsta þjóðin til að viðurkenna sjálfstæði Eistlendinga.  Hið síðara var sungið í pólitískum tilgangi því bæjarstjóri Tartu var á tónleikunum.  Það lag er ákall þjóðar til ráðamanna að berjast gegn mikilli spillingu og misrétti í landinu.

Á sex ferðadögum upplifðu kórfélagar marga spennandi hluti.  Ferðast var í flugvélum, lestum, rútum og skemmtiferðaskipum.  Fjórar borgir voru heimsóttar:  Kaupmannahöfn, Stokkhólmur, Tallinn og Tartu.  Sungnir voru tónleikar í Kaupmannahöfn, Tartu og um borð í skemmtiferðaskipi á Eystrasalti.  Að auki var sungið við ótal önnur tækifæri s.s. á gamla torginu í Tallinn og í miðbæ Stokkhólms.

Nemendur okkar voru til fyrirmyndar hvar sem þeir fóru og megum við vera stolt af þeim og þeim metnaði sem þau lögðu í sitt hlutverk. Ferðalagið má "sjá" hér:  http://www.youtube.com/watch?v=NtPyA1yfv9o

Kveðja, Stefán Þorleifsson, kórstjóri