Í UPPHAFI SKYLDI ENDINN SKOÐA

Það er við hæfi að heilsa nýju ári í FSu og nýjum áskorunum komandi annar með því að rifja upp helstu atburði liðinnar haustannar. Það er gert með því að draga út valda atburði úr nýjasta ANNÁL aðstoðarskólameistara Sigursveins Sigurðssonar sem hefð er fyrir að flytja við hverja brautskráningu nemenda. En um er að ræða 83. flutning á starfsannál frá stofnun skólans haustið 1981.

Kennsla hófst 18. ágúst 2022 með 926 nemendum í dagskóla auk á 57 nemenda í kvöldskóla og fjarnámi 10. bekkjar. Þá stunduðu 144 nemendur nám í garðyrkju og tengdum greinum að Reykjum í Ölfusi og í fangelsunum voru skráðir 74 nemendur. Yfirfærsla garðyrkjunámsins til FSu gekk vel og er þar kennt á sex námsbrautum. Kór skólans var endurvakinn í byrjun annar undir stjórn Stefáns Þorleifssonar og hélt glæsilega aðventutónleika í lok nóvember. Vettvangsferðir, sýningar og heimsóknir í skólann urðu nokkrar. Má þar nefna að nemendur í útivistaráfanga gengu yfir Fimmvörðuháls og íslenskunemar fóru á söguslóðir Njálu. Geðlestin og Emmsjé Gauti komu í heimsókn og myndlistarnemar opnuðu sýningu á verkum sínum í Listagjá bókasafns Árborgar.

FSu fékk á liðinni haustönn staðfestingu frá UNESCO um að geta kallað sig UNESCO skóla. Skólarnir eru um tólf þúsund talsins í heiminum og starfa í rúmlega 180 löndum. UNESCO skólar leggja áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamvinnu, frið og mannréttindi. Nemendafélag skólans stóð fyrir kvöldvöku fyrir nýnema og nýnemaball var haldið um miðjan september. Þá var hin árlega söngkeppni haldin í íþróttahúsinu Iðu 3. nóvember. Ellefu efnilegir nemendur stigu þar á stokk og var það Elísabet Björgvinsdóttir sem bar sigur úr býtum en hún söng lagið A Natural Woman. Elísabet mun svo keppa fyrir hönd skólans í lokakeppninni á vordögum en skólinn á þar titil að verja frá síðasta skólaári.

Hefðbundnu skólastarfi lauk með lokaprófum. Þeim prófum hefur þó fækkað verulega og símat tekið við. Nemendur í dagskóla lögðu undir 27.686 einingar við upphaf annar og undir lok hennar höfðu þeir staðist 22.711 einingar. Þetta táknar að tæplega 18% eininga höfðu tapast á önninni. Til samanburðar má geta þess að haustið 2021 töpuðust tæplega 17% eininga og haustið 2020 rúmlega 21%. Námsárangur í dagskóla, samkvæmt þessum tölum, er því aðeins lakari en á haustönn 2021 en talsvert betri en 2020.

Kvöldskólanemendur í húsasmíði og rafvirkjun voru skráðir 26 í upphafi annar og luku þeir alls 536 námseiningum. Grunnskólanemendurnir voru 31 frá níu mismunandi grunnskólum á Suðurlandi og skiluðu 115 einingum í fjarnámi í ensku og dönsku. Þá luku nemendur að Reykjum 1.237 einingum á sex námsbrautum. Í fangelsunum komu við sögu 74 nemendur á önninni, 56 á Litla-Hrauni, 14 að Sogni og 2 frá Hólmsheiði og 2 frá Kvíabryggju. Nokkur fjöldi kennara FSu sinnti kennslu í fangelsunum, ýmist með stað- eða fjarkennslu, í alls 29 mismunandi námsáföngum. Þeir 56 nemendur sem gengust undir námsmat á önninni luku alls 389 einingum á önninni.

Í lok hvers ANNÁLS er hefð fyrir því að gefa skólaskáldinu orðið:

Er gamla sólin gægist yfir brún

og gullnum bjarma slær á sölnuð tún

þá ungir una hag

og útskrifast í dag.

Því blakta fánar FSu við hún.

bb / ss / jöz