HRAFNHILDUR ÝR STEINSDÓTTIR ER DUX SCOLAE

Fjölmennasta brautskráning í sögu FSu fór fram miðvikudaginn 28. maí og var athöfnin því flutt í íþróttahús skólans IÐU. Helgast það því að nú gat hver KLÁR eða útskrifandi boðið með sér fjórum gestum í stað tveggja áður og mátti heyra á aðstandendum og gestum að þeir væru ánægðir með þá nýbreytni.

Upphaf athafnarinnar var í höndum Stefáns Þorleifssonar kórstjóra og fimmtán kórfélaga. Flutt voru fjögur lög, Yellow með Coldplay en titill lagsins vísar í einkennislit skólans. Hugdís Erla Jóhannesdóttir söng lagið End of the beginning með Djo og Birkir Hrafn Eyþórsson lék undir. Þá var það Ómissandi fólk eftir Magnús Eiríksson og að lokum söng Saga Sigríksdóttir lagið Blakk sem er írskt þjóðlag við texta Jónasar Árnasonar. Tónlistin hljómaði sérlega vel í nýjum húsakynnum og myndaði gott intró að vel skipulagðri dagskrá.

Að þessu sinni voru brautskráðir 155 nemendur af 13 námsbrautum. 103 stúdentar af bóknámsbrautum, 43 af öðrum brautum og 9 af verknámsbrautum með stúdentsprófi. Af því tilefni sagði skólameistari að „prófskírteinin væru í ýmsum útfærslum og með margvíslegu innihaldi sem endurspeglar fjölbreytt námsframboð sem er flaggskip skólans.” Gekk afhending þeirra örugglega fyrir sig. Bókaverðlaun voru afhent fyrir einstakar námsgreinar og dreifðust á marga en DUX SCOLAE var Hrafnhildur Ýr Steinsdóttir með heildareinkunnina 9,85.

Í ræðu sinni minntist Soffía Sveinsdóttir skólameistari FSu meðal annars þess þegar hún útskrifaðist á sínum tíma frá skólanum hvarflaði ekki að henni að hún stæði núna í þeim sporum að útskrifa glæsilegan hóp ungmenna frá sama skóla. Rifjaði hún upp endurkomu sína síðastliðið haust og fannst eins og tíminn hefði staðið í stað. Klykkti út með því að spyrja hvort í hópnum gætu leynst komandi kennarar við skólann eða skólameistari. Hún fullyrti að FSu væri hornsteinn menntunar á Suðurlandi og sagði: „Hér eru nemendur og starfsfólk af mörgum kynjum, ýmsum þjóðernum, frá mismunandi landshlutum, með ólíkar skoðanir og væntingar. Það er mín sýn að FSu verði ávallt samfélag þar sem nemendur og starfsfólk fái að njóta sín á eigin forsendum og finni um leið að þeir eru mikilvægur hluti í sterkum hópi.”

Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir fráfarandi formaður nemendaráðs skólans flutti ávarp nýstúdenta á yfirvegaðan hátt. Minnist hins smáa og hversdagslega sem gæfi náminu vikt. Sagði að gleðin væri við völd í skólastarfinu og fjölbreytileiki nemenda væri mikill og bar hann saman við grunnskóladvöl sína á Selfossi þar allir nemendur koma frá þeim stað.

Að lokum ber að geta framlags aðstoðarskólameistara Sigursveins Sigurðssonar að flytja annál sem gert hefur verið frá stofnun skólans. Margt áhugavert bar þar á góma eins og að árangur dagskólanemenda hafi verið óvenju góður. Þrír nemendur, Axel Sturla Pétursson, Konráð Ingi Finnbogason og Sunna Hlín Borgþórsdóttir unnu til fyrstu verðlauna í keppni Landverndar um umhverfisfréttafólk 2025. Kór FSu gaf út þrjú lög í streymi og hélt af því tilefni útgáfutónleika í Skálholtskirkju. Nemendur í grafískri hönnun sýndu verk sín í Húsinu á Eyrarbakka og nemendur í leiklist settu upp sýningu hjá Leikfélagi Selfoss. FSu hlaut sæmdartitilinn Fyrirmyndarstofnun, námsver var opnað, hinsegin vika haldin, afreksþjálfarinn Þórir Hergeirsson kom í heimsókn og hélt fyrirlestur á sal og nemendur Garðyrkjuskólans héldu Opið hús á sumardaginn fyrsta ásamt því að skólinn fékk afhentan grænfánann í þriðja skiptið nú í maí.

Að öllu þessu sögðu er hefð fyrir því að vitnað sé til hins nafnlausa skólaskálds og vísar hann nú til komu uppáklæddra dimmitenta í skólann að morgni föstudagsins 9. maí:

Í kennslustundum spaklega var spurt

og spekingarnir rýndu‘í hvort og hvurt.

Eftir harða törn,

tígrisdýr og björn

tindilfætt nú trítla héðan burt.

 

jöz